Fótspor hins illa

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2000
Flokkur: 

Úr Fótsporum hins illa:

Ég skellti hurðinni harkalega á eftir mér. Nú var mér nóg boðið. Hvernig gat mannfýlunni dottið í hug að ég hefði áhuga á brúðkaupi, hvað þá kynlífi með honum eins og nú stóð á? Þetta var mér gjörsamlega ofviða. Ég hafði skilað trúlofunarhringnum, sem ég hafði fyrir einhverja þægð borið síðustu þrjú árin. Nú var ég endanlega búin að segja skilið við Edward og mér leið mikið betur. Hann var gjörsneyddur öllum tilfinningum, þessi maður. Að detta í hug að ég hefði líkamlegan áhuga á honum, einmitt núna. Sorg mín var enn djúp og ég hafði ennþá varla getað horfst í augu við raunveruleikann og það sem gerst hafði. Faðir minn og föðursystir voru nýlátin og móðir mín lá á sjúkrahúsi í dái sem læknarnir gátu ekki vakið hana af. Enginn vissi enn með neinni vissu hvort hún myndi komast til meðvitundar á ný, eða hvort heilastarfsemi hennar væri í lagi. Ég óttaðist mest að hún hefði orðið fyrir heilaskaða. Ég vissi að hún myndi síst af öllu vilja lifa þannig, en ég gat ekki hugsað mér að missa hana líka. Tilfinningar mínar voru sveiflukenndar þessa daga og ég grét oft. Hvernig var hægt að hugsa um hjónaband á slíkum tímum? Ég gnísti tönnum og orð Edwards hljómuðu enn í huga mér.
 -María, þú verður að hugsa um framtíðina og skapa þér nýtt líf. Þú getur flutt úr Eikarlundi í íbúðina mína í Blackburn. Móðir þín er hvort sem er langlegusjúklingur og ekki getur þú bundið þig yfir henni. Þar að auki geturðu alltaf heimsótt hana á sjúkrahúsið. Þú veist líka að einhver verður að taka við hluta föður þíns í fyrirtækinu og ég geri það með glöðu geði nú strax. Það er ýmislegt sem má breyta í þessu fyrirtæki, svo að það skili meiri hagnaði. Færra starfsfólk og meiri arður til eigenda.
 Það var einmitt þarna sem ég hafði sprungið. Mannfýlan ætlaði að hirða fyrirtæki föður míns, hneppa mig í hjónaband og láta móður mína dúsa á einhverju hæli. Ég hafði orðið svo reið að ég gat ekki talað. Trúlofunarhringurinn skall á disknum fyrir framan hann og stóllinn valt, svo snöggt stóð ég upp.
 Edward hafði orðið vandræðalegur. Uppistand á veitingahúsi hentaði honum að sjálfsögðu ekki. Til þess var hann of fágaður. Hann fölnaði.
 - María, förum heim til mín. Við getum átt notalega kvöldstund saman. Ég tók á allri stillingu minni til að slá hann ekki utan undir. Þetta var í fyrsta skipti á ævinni sem mig virkilega langaði til að lumbra á einhverjum. Ég skalf innra með mér og reiðin var svo ofboðsleg að ég var hálft í hvoru hrædd við sjálfa mig. Ég varð að komast burt áður en ég gerði eitthvað vanhugsað. Stór vatnskanna stóð á borðinu og ég velti því fyrir mér hvort ég ætti að brjóta hana á hausnum á honum.
 - Edward Browning, ég vil ekki hafa neitt saman við þig að sælda framar.
 Að svo mæltu gekk ég hnarreist út úr veitingahúsinu. Ég sá að þjónninn kímdi örlítið en mér var alveg sama. Mér var líka sama þó að hurðarskellurinn heyrðist um allt. Mér var andskotans sama hvað öllum fannst. Ég hafði verið særð hvað eftir annað og þetta varð til þess að fylla mælinn. Edward var hrokafyllri en allt sem hrokafullt var og hann mátti svo sannarlega sigla sinn sjó fyrir mér. Ég ætlaði að standa mig, án hans. Ég þurfti ekki karlmann til að hugsa fyrir mig eða til að ráðskast með eigur mínar. Ég þurfti bara engan karlmann til neins.

(s. 9-10)