Frá himni og jörðu

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1989
Flokkur: 

Myndir : Anna Ágústsdóttir.

Úr Frá himni og jörðu

Ljósið

Drengur nokkur var ekki eins vitlaus og fólkið í þorpinu hans hélt. Hann var frelsari og ljós innra með honum.
 Dag einn var hann að saga spýtu fyrir pabba sinn. Þá sagði hann við sjálfan sig: Ég ætla að láta ljós mitt skína.
 Svo kvaddi hann mömmu sína og pabba og fór burt til að láta ljós sitt skína.
 Það skein á alla hálfvitana í heiminum og þeir urðu harla glaðir. Þeir héldu að ljósið stafaði frá þeim sjálfum.
 En brátt komust þeir að hinu sanna. Þá héldu þeir landsfund að næturlagi og sameinuðust gegn frelsaranum. En ljósið skein í myrkrinu og myrkrið fékk ekki eytt því og þeir sögðu: Hvaða helvítis ljós er þetta? Oj, bara, almennilegt fólk fær ofbirtu í augun.
 Svo héldu þeir rakleitt til frelsarans og sungu allir í kór: Ég elska myrkrið og myrkrið elskar mig, vi er forlovet mørket og jeg.
 Frelsarinn kunni ekki að meta þennan söng og sagði: Vei yður.
 Þá sögðu hálfvitarnir: Drepum hann.
 Svo drápu þeir hann.
 En ljósið innra með honum skein á þá þótt hann væri dáinn. Það festist í hárinu á þeim, lýsti af nefbroddunum, át sig inn í andlitin, smaug milli rifjanna á þeim. Það var svo skært að hálfvitarnir í heiminum gátu ekki slökkt það hvernig sem þeir reyndu.
 Þeir skinu af ljósi frelsarans um aldir alda.
 Hann hafði sigrað heiminn.
 Samt héldu hálfvitarnir í heiminum áfram að vera sömu hálfvitarnir.

(s. 31-32)