Frá ljósi til ljóss

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2001
Flokkur: 

Í þessari skáldsögu Vigdísar Grímsdóttur kynnumst við Lenna, Róbert, Rósu og ýmsu fleira samferðarfólki og skyggnumst inn í líf þeirra. Leit þeirra að hamingjunni og draumurinn um betri daga er sá drifkraftur sem knýr verkið. Og hver um sig gerir sitt besta í því völundarhúsi sem tilveran getur verið - þar sem enginn veit hvað býr handan hornsins.

Frá ljósi til ljóss er fyrsta bókin í þríleik; hinar tvær eru Hjarta, tungl og bláir fuglar og Þegar stjarna hrapar.

Úr Frá ljósi til ljóss:

Kortalíf

Á hverjum degi þegar Rósa kom heim úr skólanum og var ein heima, gekk hún meðfram arninum og las á öll kortin án þess að hreyfa þau úr stað. Og í hvert einasta skipti sem hún gerði það fann hún að ferðalag Lenna færðist nær henni. Stundum var jafnvel einsog hún hefði tekið þátt í því sjálf, heyrt allt sjálf, séð allt sjálf, stundum var líka eins og hún vissi meira en hann skrifaði.

***

Hún sá fyrir sér blámálaða veitingahúsið með gulu veröndinni í Fönix í Arisóna en þar gisti Lenni í nokkra daga á leið sinni til Nýju Mexíkó. Þarna sat hann í ermalausum bol og dreypti á víni undir rauðri sólhlíf. Beint á móti honum í sólinni sat gömul indíánakona sem reykti pípu. Hún blikkaði hann í sífellu, benti honum að koma til sín en skildi svo ekkert í þegar hann vildi ekki reykja með henni. Maðurinn hlaut að vera skrítinn. Það var nú ekki einsog indíánar legðu í vana sinn að bjóða fólki að reykja með sér, sagði hún við hann og spurði svo hvort hann vildi ekki kaupa af sér armband með turkissteini. Eða hvort hann ætti kannski ekki kærustu? Svona vöðvastæltur og fallegur karlmaður hlaut að eiga kærustu! Hann sagði henni að enga ætti hann kærustuna enn. En hann keypti samt af henni armband með sægrænum turkissteini og sagðist ætla að gefa dóttur sinni það þegar hann hitti hana næst þótt hann vissi ekki hvað langur tími liði þangað til. Svona var hann í rauninni alltaf hugulsamur hvar sem hann var staddur í heiminum.

(s. 38-39)