Frá Umsvölum

Útgefandi: 
Staður: 
Akranes
Ár: 
1977
Flokkur: 

Úr Frá Umsvölum:

Þú verður að hlusta. Þú verður að vera tómur.
J.M.G. Le Clézio.

1

Frá Umsvölum sé ég hrafnana í slyddunni.
Þegar ég kom í þorpið
gekk ég niður að sjónum.
Það er pósthús á sjávarkambinum
og þaðan sendi ég orð mín.
Þú verður að hlusta.
Þú verður að vera tómur.
Ég heyrði í hröfnunum
og þá vissi ég
að ég var staddur á jörðinni.
Ég fylgdist með flugi þeirra.
Nú sé ég þá í slyddunni
og framundan er nes
þar sem hvítar öldur brotna.
Ég er tómur,
en landslagið fyllir mig;
ekki mín eigin rödd.
Hafið er grátt
eins langt og augað eygir.
Veðurhljóðið er skyndilega hér inni,
húsin á sínum stað,
bílarnir á götunni,
ekkert fólk
nema í bókunum
og það segir:
Þú verður að hlusta.
Þú verður að vera tómur.
Seinna kemur rækjubáturinn að.
Seinna kemur flugvélin með einn farþega,
fáein bréf, tvo kassa af víni.
Hún er eins og leikfangavél,
flýgur lágt yfir landið,
líður eins og sleði
yfir hvít fjöllin
eða eins og gömul rúta
um þjóðveginn.
Þegar heyrist í henni
er ekið í jeppa út á flugvöll.
Tveir ungir menn með gleraugu
bjóða ekki góðan daginn.
Þeir taka þögulir við farangrinum
og rétta flugmanninum póstinn
sem póstafgreiðslumaðurinn við hafið
hefur stungið í strigapoka
og innsiglað með þarailmi.
Hundurinn Loki
sem á skoskan föður
og síbríska móður
stendur á tröppunum á Umsvölum
hjá Regínu og Ella
sem hafa verið í Ástralíu og Alsír
og í Texas þar sem grasið er hátt og þurrt
og skortíturnar syngja svo fallega.
Fuglinn hér er hrafninn
í slyddunni,
í sálinni
og í þessum orðum.
Sá sem hlustar
er ekki tómur.

(s. 7-9)