Frásögn um margboðað morð

Þýðandi: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1982

Um þýðinguna

Cronica de una muerte anunciada eftir Gabriel García Márquez í þýðingu Guðbergs.

Úr Frásögn um margboðað morð

Santíago Nasar fór snemma á fætur daginn sem þeir hugðust drepa hann, klukkan sex að morgni, vegna þess að hann hugðist taka á móti skipinu sem sigldi með biskupinn. Um nóttina hafði hann dreymt að hann ferðaðist um skóg vaxinn gildum fíkjutrjám í mildum regnúða, og í draumnum fann hann andartak fyrir gleði, en þegar hann vaknaði þótti honum að hann væri alþakinn flugnadriti. Hann var vanur að dreyma tré, sagði Plaþída Línero móðir hans mér 27 árum síðar, þegar hún minntist í smáatriðum hins ógnþrungna mánudags. Vikuna áður hafði hann dreymt að hann flygi einn í flugvél úr silkibréfi, hindrunarlaust milli möndlutrjánna, sagði hún.

Plaþída Línero var að verðleikum fræg fyrir hvað hún réði rétt drauma annarra, þó með því skilyrði að hún hlustaði á þá á fastandi maga, en hún fann ólánsmerki í hvorugum draumi sonar síns, og ekki hafði hún heldur greint neitt uggvænlegt í öðrum draumum hans um trén sem hann rakti fyrir henni að morgni dagana áður en dauðinn barði að dyrum.

Santíago Nasar greindi ekki heldur neinn fyrirboða. Hann hafði sofið illa og stutt án þess að hann færi úr fötum og vaknaði með höfuðverk og bragð af koparístaði á tungunni, en taldi þetta vera eðlilegar afleiðingar eftir brúðkaupssvallið sem hafði dregist fram yfir miðnætti. Á hinn bóginn mundu margir sem hittu hann eftir að hann fór að heiman, klukkan fimm mínútur gengin í sjö, og þangað til hann var höggvinn í spað sem svín klukkutíma síðar, að hann var svolítið syfjulegur en í sólskinsskapi og sagði blátt áfram við alla að morgunninn væri dýrlegur.

(s. 7-8)