Fúfú og fjallakrílin

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1983
Flokkur: 

Myndir: Búi Kristjánsson.

Úr Fúfú og fjallakrílunum:

Húsið á fjallinu

Óralangt í burtu frá öllu því sem er, ofar hæðum og hólum og hugsunum manna, rís Fjallið ógurlega. Það er svo hátt að þangað kemst ekkert nema fuglinn fljúgandi, skýin og vindarnir.
 Skýin líða um himininn, snjóhvít, mjúk og létt. Oftast svífa þau hátt í lofti, langt ofan við Fjallið ógurlega eða skoppa umhverfis það. En stundum eru þau þung og grá. Þá nenna þau ekki að beygja frá þegar för þeirra ber að fjallinu heldur setjast þau umhverfis tindinn, síga niður eftir hlíðunum og vilja hvíla sig. Þá reiðist Fjallið ógurlega og skekur sig og hristir til að losna við þessi þungu, votu ský sem byrgja því alla sýn. En þegar það hristir sig svona renna aur- og grjótskriður af stað niður hlíðarnar með feiknalegum hávaða og látum og staðnæmast ekki fyrr en löngu, löngu neðar, alveg niðri á jafnsléttu. Þá gefast skýin oftast upp og hypja sig í burtu. Þau sjá að hér er enginn friður.
 En þó að fuglar, veður og vindar séu einu gestirnir sem koma og fara á Fjallinu ógurlega, er ekki þar með sagt að ekkert annað kvikt sé þar að finna. Þar leynast ýmsar undarlegar verur í holum og hellum. Og efst á fjallinu er meira að segja hús.
 Þetta hús er mjög skrítið. Það er afar hátt og á því eru margir gluggar, sem vita í ýmsar áttir. Þakið er kúpt eins og hattur á sveppi. Utan á veggjunum vex margs konar gróður. Þar eru bæði blóm og smáhríslur, súrur, puntstrá og meira að segja rabarbari.
 Inni í húsinu er fullt af litlum herbergjum. En það furðulega við innréttinguna í þessu húsi er að þar er ekkert beint og slétt eins og í öðrum húsum, heldur er allt á skakk og skjön. Herbergin eru úti um allt og uppi um allt, en á milli þeirra liggja litlir stigar sem tengja þau saman.
 Þetta er húsið þar sem fjallakrílin búa.
 Fjallakrílin eru ekki ein fjölskylda, þó þau búi í sama húsi. Þau eru alls ekkert skyld hvert öðru. Enginn veit hvers vegna þau eru þarna. Þau eru þar bara og hafa verið svo lengi að þau eru sjálf búin að gleyma hvenær eða hvers vegna þau komu þangað. En allir verða að eiga einhver staðar heima og það er sem sagt hér sem fjallakrílin eiga heima.

(s. 5-6)