Fuglaskottís

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1975
Flokkur: 

Úr Fuglaskottís:

Hefur einhver áhuga á þessu gamla, segir Alfea Magnhildur : þessu gamla gamla.
Þessu gamla, segir Ármann dolfallinn: hvar værum við stödd ef ekki væri þetta gamla. Saga okkar. Hvaðan við komum. Við erum einmitt þetta gamla. Þessir víkingar sem við erum svo stolt af. Hvar værum við stödd ef við hefðum ekki stolt. Og þetta er okkar stolt. Við værum ekki neitt ef við ættum okkur ekki sögu. Glæsta sögu sem við getum alltaf horfið aftur til ef eitthvað bjátar á. Og rifjað fyrir okkur afreksdáðir Gunnars á Hlíðarenda og nafna hans Þiðrandabana, eða þegar Kjartan Ólafsson sigraði sjálfan Ólaf konung í sundinu. Eruð þið búin að gleyma því? Eða Skarphéðinn í brennunni þegar þeir báru á hann að hann gréti í eldinum en hann svaraði að sér súrnaði í augunum og gerði sér svo lítið fyrir og tók jaxlinn úr pússi sínu sem hann hafði höggvið úr Þráni eftir langstökkið á Markarfljóti og kastaði í auga á Gunnari Lambasyni sem var að bera á hann að hann gréti svo það lá bara úti á kinninni, hvorki meira né minna, og maðurinn datt ofan af þekjunni.
Agalega hefur það verið stór jaxl, segir Þjóðbjörg.
Virkilega, segir Alfea Magnhildur: var Þráinn kannski hestur, þessi Þráinn sem þú varst að nefna?
Hann hefur kannski haft neðri kjammann úr kallinum á sér alltaf síðan hann hljóp yfir fljótið til að höggva manninn, segir Bernódus.
Nú, var þetta bara maður, segir Alfea Magnhildur: með svona ægilega stóra tönn. Bara venjulegur maður. Með svona tönn einsog Boris Karloff í Frankenstein.
Kannski Þráinn hafi verið varúlfur. Án þess nokkur vissi. Nema kannski Skarphéðinn. Sem hefur gefið honum kraft í stökkið, segir Bernódus.
Hvað er varúlfur? segir Þjóðbjörg.
Það er venjulegur maður sem verður að úlfi, segir Bernódus: Eða grimmur eins og úlfur.
Jesús, sagði Alfea Magnhildur og lét hárlokk falla yfir annað augað, togaði í lokkinn tveim fingrum og færði yfir nefbroddinn á sér svo hún sæi með báðum augum.
Og svo voru nú berserkirnir, segir Ármann: verið þið ekki að pexa um tönnina. Það þarf ekki að véfengja hana Njálu. Þar er ekki farið með neitt fleipur.
Berserkir, segir Þjóðbjörg há og grönn og klappaði á hnútinn hársins í hnakkanum, og tók á honum líkt og hún væri að mýkja stinna appelsínu.
Já þið hljótið að muna eftir berserkjunum sem vildu fá dóttur Víga-Styrs en hann sneri á þá með ráðum Snorra goða, lét þá ryðja veg um hraunið fyrir sig og byrgði þá síðan í baðstofunni inni og drap þá svo dasaða af erfiðinu og slenjaða af gufu, þið hljótið að muna eftir því, segir Ármann: þessum miklu dáðum forfeðranna. Munið þið ekki eftir afrekum forfeðra okkar?
Æ, segir Alfea.
Þjóðbjörg sagði ekkert en leit snöggvast á svarta Sál einsog til að kanna hans hug; en hann tuggði bara einsog tungl sem nartar í fjallstind í dulskæðum bjarma, andhverfa sólar.

(bls. 75-76)