Furðustrandir

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2010
Flokkur: 

Um Furðustrandir

Erlendur er á æskuslóðum sínum austanlands og fortíðin sækir á. Ekki aðeins atvik úr hans eigin lífi, heldur einnig önnur óleyst og óuppgerð mál. Fyrir mörgum áratugum urðu þarna óhugnanlegir atburðir þegar stór hópur breskra hermanna lenti í óveðri og villum í fjöllunum. Sumir komust til byggða við illan leik, aðrir ekki. En sömu nótt hvarf ung kona á sama stað og fannst aldrei. Saga hennar vekur forvitni Erlendar sem þyrstir í svör við gátum fortíðar, hversu sársaukafull sem þau kunna að reynast.

Úr Furðustöndum

- Nútíminn er kyndug skepna, sagði hún og skipti skyndilega um umræðuefni, fór að tala um breytta tíma og umbyltingar sem hún hafði lítil tök á að skilja; framkvæmdirnar við álverið, stífluna hjá Kárahnjúkum, jökulsárgljúfrin sem búið var að eyðileggja og lónið ofan við stífluna sem yrði stærsta manngerða vatn á Íslandi. Það var þó ekki á henni að heyra að hún fagnaði neinu af þessu. Erlendi varð hugsað til Bóasar á leiðinni niður af heiðinni. Hann hafði sagt honum frá grunsemdum sem vöknuðu og höfðu lifað með fólki sem mundi atburðina þegar Matthildur hvarf. Flest var það komið undir græna torfu eða orðið afgamalt og skrítið, hafði Bóas sagt.
- Jakob Ragnarsson átti erfitt, sagði Hrund eftir útúrdúrinn.
- Hvernig erfitt? spurði Erlendur.
- Svona þegar tímar liðu og ýmsar sögur fóru á kreik. Það var jafnvel sagt að hún hefði ásótt hann, að hann hefði ekki fengið frið fyrir henni þau fáu ár sem hann átti eftir ólifuð. Slíkt endemis bull. Eins og systir mín væri einhver draugur ... einhver Miklabæjar-Solveig.
- Hvað fannst ykkur, fjölskyldunni? Var einhver ástæða til þess að rengja hann?
- Það var ekki gerð nein rannsókn, sagði Hrund. En vegna þess að Matthildur fannst aldrei vöknuðu grunsemdir, eins og vænta mátti, um að Jakob hefði eitthvað að fela. Að Matthildur hefið flúið frá honum og út í óveðrið, að hún hefði aldrei ætlað yfir í Reyðarfjörð en hann hefði hrakið hana út í það. Bóas ræfillinn hefur líklega ekki skafið utan af því þegar þið töluðuð saman.
Erlendur hristi höfuðið.
- Hann minnist ekki á það. Hvað varð aftur um Jakob? Fórst hann ekki?
- Hann drukknaði og var jarðsettur á Djúpavogi. Það gerðist nokkrum árum eftir að Matthildur lést. Bátnum hans hvolfdi í vitlausu veðri á Eskifirði og þeir fórust báðir sem voru um borð.
- Og þar með var því lokið.
- Ætli það ekki, sagði Hrund. Matthildur fannst aldrei. Mörgum árum seinna fórst ungur drengur á heiðinni. Hann fannst aldrei heldur. Það er ekki tekið út með sældinni að búa í þessu landi.
- Nei, sagði Erlendur. Það er satt.
- Ertu kannski að spyrjast fyrir um það mál líka?
- Nei, ekki er það.
- Þeir sögðu að hún hefði ásótt Jakob og að lokum dregið hann til dauða. Henni var jafnvel kennt um slysið þegar hann fórst. Firra auðvitað. Íslendingar hafa gaman af draugasögum og þeir hafa sérstaklega gaman af að búa þær til. Það gekk svo langt að einn af þeim sem báru kistuna hans taldi sig hafa heyrt veinið frá honum í kirkjugarðinum þegar hann var settur niður. Bullið alltaf hreint! Og það var ekki allt.
- Ég heyrði einhvern tíma talað um Bretana, sagði Erlendur.
- Eitthvað var talað um að hún hefði farið í Bretann. Verið í ástandinu, verið með hermanni á laun og siglt með honum út. Skammast sín fyrir það og aldrei skrifað heim.
- Eða dáið?
- Já, eða dáið fljótlega eftir að hún fór út. Það var spurst fyrir meðal setuliðsmannanna sem hér voru en enginn kannaðist við neitt slíkt. Enda fjarstæða. Algjör fjarstæða.
(s. 28-30)