Fylgjur

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1998
Flokkur: 

Safn smáprósa. Bókin hlaut Menningarnæturverðlaun Reykjavíkurborgar 1998 og var einnig tilnefnd til Menningarverðlaun DV í bókmenntum árið 1999.

Úr Fylgjum:

Stundum held ég að það búi miklu fleiri inni í mér en ég mun nokkurn tímann geta komist að. Ég er til dæmis mjög oft að koma sjálfum mér á óvart. Ég er kannski að vaska upp og sé þá allt í einu glænýja hlið á mér. Það kemur að vísu fyrir að mér er bent á það. Að þetta sé mikið ég eða þá að þetta sé nú mjög ólíkt mér.
Þegar ég velti því fyrir mér þá er ekki til neitt sem heitir heilsteyptur persónuleiki. Mér finnst að hann sé meira eða minna fljótandi og mótin eru líka alltaf að breytast og hreyfast til. Maður harðnar bæði og mýkist með aldrinum og það er heldur aldrei hægt að sjá heildarmyndina alla í einu.
Ef hún er þá á annað borð til.
(s. 7)

-----------------------

Þegar ég þarf nauðsynlega að fá svar við því sem ég get ómögulega skilið panta ég gjarnan leigubíl og læt hann aka mér nokkra hringi um bæinn. Á leiðinni varpa ég fram þeim spurningum sem brenna á mér og fæ yfirleitt svör við þeim öllum. Leigubílstjórarnir eru véfrétt borgarinnar og vita svör við því sem farþeginn spyr þá um. Sumir hverjir setja ekki einu sinni mælinn í gang. Þeir eru mælikvarðinn sjálfur.
(s. 11)

---------------------

Ég hef lengi verið hrifinn af þögninni. Hún spannar allan tónskalann og framkallast í huganum sem bogadregnar nótnalínur. Boginn minnir á regnbogann sem sýnir allt litrófið undir réttum kringumstæðum. Ég skynja hana sterkt en á sama tíma er hún ofar skilningi mínum. Þegar ég opna munnin og nefni þetta við konuna mína hverfur hún um leið.
(s. 33)