Gæludýrin

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2001
Flokkur: 

Gæludýrin var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2001.

Úr Gæludýrunum:

 Hann gekk upp Laugaveginn og stoppaði ekki fyrr en hann var kominn að matsölustað örskammt frá strætisvagnastöðinni við Hlemm. Hann kíkti sem snöggvast á matseðil í glugganum og gekk svo inn. Á vinstri hönd voru dökkir, viðarklæddir básar sem minntu á bandaríska sveitakrá en ýmislegt annað þarna inni benti til þess að staðurinn væri rekinn af fólki frá Asíu. Við vegginn hægra megin var stórt borðstofuborð með glerplötu, nostursamlega útskorið á austurlenskan hátt, að því er virtist, og í afgreiðslunni stóðu tvær lágvaxnar, asískar stúlkur. Hann gekk til þeirra og spurði á ensku hvort hann gæti fengið að hringja . Þær svöruðu honum á íslensku, það væri tíkallasími fyrir innan, áður en hann kæmi að salerninu. Önnur þeirra lét hann hafa smámynt í símann á meðan hin færði honum tvöfaldan vodka sem hann pantaði um leið og hann bað um símaskrá. Hann færði sig yfir að almenningssímanum og fletti í skránni. Svo sló hann inn númer og beið án þess að fá svar. Þá opnaði hann skrána aftur og leitaði að öðru númeri. Á meðan hann sópaði blaðsíðunum kröftuglega til hliðar sagði hann upphátt nafnið Halldór, endurtók það síðan nokkrum sinnum í hálfum hlóðum, bætti síðan Emilsson við, tók góðan sopa úr vodkaglasinu og á sama augnabliki og hann virtist finna númerið kyngdi hann sopanum sem varð til þess að hann gretti sig og hristi. Í þetta sinn var svarað.
 Hann spurði hvort þetta væri hjá foreldrum Emils S. Halldórssonar og það var greinilegt að svo var því hann rak þumalinn út í loftið og hreyfði varirnar eins og hann væri að segja yes. Þetta væri sem sagt móðir hans? Hann sagðist vera gamall skólafélagið Emils, hann hefði látið sig hafa símanúmerið hjá henni; ef svo færi að hann næði ekki í hann í sínu númeri þá gæti verið að hann væri hjá mömmu sinni og pabba, hefði hann sagt. Vissi hún hvort hann væri í bænum? Hann þyrfti nauðsynlega að ná í hann, helst í dag. Hann væri í útlöndum? Að koma heim í dag? Bara núna seinnipartinn? Hann ætti að lenda um fimmleytið? Ætli yrði nokkur seinkun? Líklega ekki. Emil hefði örugglega steingleymt að segja sé frá því að hann yrði úti, hann hefði talað við hann fyrir nokkrum vikum, hann byggi sjálfur í útlöndum og það væri auðvitað ekki stöðugt samband á milli þeirra. Nú, dreif hann sig bara út þegar hann fékk happdrættisvinninginn? Hann hefði ekki heldur sagt sér frá því. Hann spurði hvort þetta hefði verið stór vinningur og brosti þegar hann fékk svarið frá móður Emils. Gott hjá honum að drífa sig svona út, það væri ekki á hverjum degi sem maður fengi svona peninga upp í hendurnar.
 Hann þakkaði móður Emils fyrir og sleit símtalinu. Seinnipartinn, sagði hann við sjálfan sig og lagði tólið á. Svo lyfti hann glasinu, hallaði því hægt að vörunum eins og hann væri ekki alveg búinn að gera það upp við sig hvort hann ætti að drekka úr því, síðan skolaði hann í sig því sem eftir var í einum teyg, núna án þess að gretta sig.

(s. 73-75)