Gættu þín Helga

Útgefandi: 
Staður: 
Akureyri
Ár: 
1985
Flokkur: 

Úr Gættu þín Helga:

 Helga og Karen voru að gefast upp á að bíða á þakinu. Það var engin umferð á götunum og enginn virtist taka eftir þeim. Þær höfðu reynt að kalla en árangurslaust. Helga krossbölvaði stelpunum í sjoppunni á móti. Nú voru þær örugglega með útvarpið á fullu, að hlusta á rás 2. Að minnsta kosti heyrðu þær ekki þó þær æptu eins og hljóðin leyfðu. Þær höfðu kannað möguleikann á að komast yfir á þakið á lögreglustöðinni, en það var of langt frá. Það var algjört sjálfsmorð að ætla að reyna að stökkva.
 - Ég fer að hníga útaf hérna á þakinu. Þú ættir bara að vita hvað ég er í raun og veru lofthrædd. Ég hef varla mátt til að standa upp á tunnu án þess að mér líði illa. Krakkarnir hafa oft hlegið að því.
 Karen dæsti og nuddaði á sér lærin. Helga vorkenndi henni. Hún sá á andliti Karenar að hún fann til. Hún hafði áreiðanlega marist illa við að komast upp á þakið.
 - Við megum ekki gefast upp. Þetta hlýtur að bjargast.
 Sjálf var Helga hálf vondauf.
 - Uss. Sjáðu.
 Helga benti niður á götuna. Þarna kom bíll að bakhlið hússins, og þær sáu Rúnar og Njál koma út.
 - Beygðu þig niður.
 Karen gerði eins og Helga sagði og þær reyndu að gera eins lítið úr sér og þær gátu.
 - Jesús, nú sjá þeir að við erum farnar. Tókstu stigann upp?
 - Já og lokaði lúgunni.
 Þær önduðu léttar. Þá var ekki víst að þeir myndu átta sig á undankomuleið þeirra strax.
 - Við verðum að gera eitthvað.
 - Við skulum skríða út á enda hinumegin. Þá erum við að minnsta kosti eins langt frá glugganum og hægt er.
 Þær mjökuðu sér hægt út á brún. Fyrir neðan þær var tjörnin. Hún var auð og nokkrar endur, sem töldust til íbúa bæjarins syntu rólyndislega á tjörninni. Lítill drengur var að gefa þeim brauð. Þær fóru að veifa, en þorðu ekki að kalla til hans. Fyrst tók hann ekkert eftir þeim en svo leit hann upp.
 - Oh, hann er búinn að sjá okkur.
 Helga sem sat framar, veifaði í gríð og erg. Sá litli horfði á hana stórum augum, en veifaði svo á móti. Honum fannst að vísu skrítið að sjá konurnar þarna uppi, en það var líka gaman. Hann hafði verið að vona að þetta væru jólasveinar.
 - Hann bara veifar.
 Karen var með gráthljóð í röddinni.
 - Við stökkvum í tjörnina.
 - Nei.
 Karen horfði niður og henni fannst eins og Helga væri að biðja hana að stökkva úr Hallgrímskirkjuturninum.
 - Við deyjum ef við stökkvum.
 - Nei, við stökkvum. Að minnsta kosti ætla ég að gera það. Ég sit ekki lengur hér.
 Karen greip í hana.
 - Þú ert brjáluð. Við lifum það ekki af.
 Þær heyrðu einhvern skarkala fyrir neðan sig. Karen hvítnaði í framan.

(s. 154-155)