Galdur

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2000
Flokkur: 

Úr Galdri:

Því var það að sjómaðurinn var lagður til í rekkju í kvennaskálanum, enn illa vankaður og allsendis óvíst hvort hann myndi lifa páskadaginn. Griðkurnar drógu ullarnærföt á piltinn og nokkur börn voru látin hátta upp í til hans til að ylja honum enn frekar. Yfir þau voru lagðar ábreiður á ábreiður ofan, svo þau kófsvitnuðu og eftir skamma stund voru þau orðin eirðarlaus og laumuðust út úr rekkjunni eitt af öðru þegar kvenfólkið var farið að sinna öðrum og brýnni verkum. Öll nema önnur systranna frá Stóru-Ökrum, sú eldri, sem rætnar tungur sögðu hafa vott af grænlensku skrælingjablóði í æðum. Hann hafði verið með þangflækju í úfnu, axlasíðu hárinu og rankað við sér þegar Ragnfríður var að hreinsa hana úr hrokknum kollinum með nærfærnum fingrum. Það tók langan tíma og á meðan sagði hún honum kliðmjúkum rómi söguna af Sassumu sjávarmóður, sem sat á mararbotni með þara í hárinu sínu mikla og fældi burt veiðidýrin ef seiðmennirnir komu ekki að greiða úr henni flókann og flétta hana og syngja fyrir hana, svona kveða þeir, og stúlkan sönglaði við hann sundurlausa tóna á einskis manns tungu: Qa-vam-mut kak-kak qii-ma-naq ... Hann skildi ekki orð af því sem hún sagði en horfði heitum brúnum augum í dökkleitt andlit hennar og það róaði hana sjálfa að tala og söngla því augnaráð hans eitt olli því að hjarta hennar sló hraðar; augun gljáðu ekki af hitasótt heldur einhverju allt öðru. Hvern drátt í andliti hans mundi hún, hvernig það hafði lýst upp í brosi og hverja stroku handa hans og ólguna sem hann vakti í blóði hennar þegar hann fór höndum um naktar axlir hennar og kvið og læri. Sársaukinn þegar hann smaug inn í hana kom henni á óvart en var óðar gleymdur og skipti engu. Hann brosti og andvarpaði sæll og hún fann tungu hans í munni sínum og saug hana áköf eins og barn sýgur brjóst móður og sleikti höku hans, hrjúfa af skeggrótinni og fann saltbragð af trylltu briminu sem hafði skolað honum upp á ströndina...

(s. 10 - 11)