Gangandi íkorni

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1987
Flokkur: 

Úr Gangandi íkorna:

Stíg inn í búðarholuna og finn nýtt blóð streyma úr innbyggðum gosbrunni í munninum. Innan dyra vantar ekkert nema viftur og flugnanet til að vekja stemningu úr heitara loftslagi. Úr kjallaranum berast dumbir hvellir.
„Búðarlokan að skjóta rottur með loftriffli,” segir Björg þurrlega og kiprar augun. Hún bankar mynduglega í borðplötuna. Maður kemur braukandi og bramlandi upp stigann með pappakassa merktan þekktri viskýtegund í fanginu. Hann heilsar með tuði milli sundurleitra tanna, leggur kassann frá sér á gólfið og ýtir með fæti undir afgreiðsluborðið.
Björg leggur miðann á borðið.
„Og rúsínupakka gleymdi ég víst að skrifa.”
„Hvíta skósvertu?” spyr maðurinn vantrúaður.
„Já, stendur það ekki þarna?” Björg er óbifanleg.
Neðan úr loftinu hanga léreftssekkir einsog mjölstokknar leðurblökur sem búið er að vængstýfa og fita. Ég sé kúst standa við hurðarkarminn og teygi mig í hann svo lítið ber á, pota með skaftinu í einn sekkinn meðan afgreiðslumaðurinn dregur veigalítinn stólkoll að hillu og stígur upp á hann rýnandi í miðann. Set óvart gat á sekkinn, og það byrjar að snjóa. Hægt og jólalega í fyrstu, en svo rifna saumar. Björg er skyndilega alhvít. Hún hristir sig og hvæsir, búðarlokan hoppar ofan af kollinum og vindur sér í loftinu.
„Ertu vitfirrtur, drengpjakkur!” ískrar hann.
Ég er þögull. Læt blóðið renna og fylla munninn enn einu sinni. Björg tekur af mér kústinn. Leðurblakan sprungin, slapir lífvana yfir höfðum okkar.
Á heimleiðinni sjáum við að það þarf að mála turn kirkjunnar, hann er orðinn skellóttur. Ég spyr Björgu um burknana undir hamraborginni, hvort þeir geti ekki vaxið annars staðar. Hún svarar mér ekki.
Sólin hverfandi.

(s. 41-2)