Garðurinn

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2008
Flokkur: 

Um bókina

Garðurinn er spennusaga fyrir börn og unglinga. Hún fjallar um Eyju sem bregður þegar hún lítur út um gluggann á nýju íbúðinni og sér að hinum megin við götuna breiðir gríðarmikill kirkjugarður úr sér, fullur af legsteinum og krossum. Þvílíkir nágrannar! Þó verður ástandið fyrst svart þegar pabbi hennar kaupir brúna leðurstólinn í antíkbúðinni niðri í bæ. Foreldrum hennar finnst hann algert æði en Eyja finnur strax að stólnum fylgir eitthvað sem er óvelkomið inn á heimilið – eitthvað vont. Í nýja skólanum kynnist Eyja skemmtilegum stelpum en allra bestur er Sölvi – strákurinn sem er kannski vinur og kannski kærasti og kannski í 10. bekk. 

Úr Garðinum

Anna og Hrönn voru ekki í dansi. Þær voru í fimleikum. ,,Vilt þú ekki bara skella þér með okkur á eina æfingu og athuga hvernig þér finnst? spurðu þær og dúskarnir á nýju hvítu húfunum þeirra dingluðu til og frá. Mikið sem fólk ofmat hæfileika mína í þessum skóla. Í gamla skólanum vissu allir að ég spilaði á flautu og fannst það alveg nóg. Ég útskýrði fyrir stelpunum að ég þyrfti að æfa mig daglega á flautuna á milli þess sem ég færi í tíma.

,,Á hverjum degi? Og finnst þér það ekki leiðinlegt? spurði Anna.

,,Nei, alls ekki. Það er svo skemmtilegt að spila. Að hugsa sér að einhverjum skuli hafa tekist að semja svona fallega tónlist og mér hafi tekist að æfa mig svo mikið og vel að ég geti leikið hana. Ég meina, ég er farin að leika lög eftir Bach, Atla Heimi og Telemann.

,,Telemann, sagði Hrönn hugsi. ,,Minnir mig á, ég þarf að fara með mömmu í bæinn eftir skóla. Hún ætlar að gefa mér nýjan síma í afmælisgjöf. Minn er alveg glataður. Ekki hægt að setja inn sína eigin hringingu.

Allt í einu langaði mig til að sjá mæður Hrannar og Önnu. Voru þær líka alveg eins klæddar?

Það hafði fryst um nóttina og pollinn á skólalóðinni hafði lagt. Það kom samt ekki í veg fyrir að strákarnir hjóluðu yfir hann. Nú var tilgangurinn að reyna að komast yfir svellið án þess að detta en samt fengu þeir sem duttu mestu aðdáunina.

Þegar hringt var inn úr frímínútunum sá ég hvar Ása og Heiðveig voru að róta með tánni í kulnuðu grasinu. Ég fór til þeirra og spurðu hvort þær væru að leita að einhverju.

,,Já, lyklunum mínum. Þeir duttu úr vasanum, svaraði Ása. Röddin var svo hvell að það var eins og hún væri alltaf hress. Kannski var hún það líka bara - jafnvel þótt hún hefði týnt lyklunum sínum.

Þótt hinir krakkarnir væru farnir inn héldum við áfram að leita þar til ég steig allt í einu á lyklakippuna. ,,Ég verð að reyna að passa betur upp á dótið mitt. Mér finnst ég alltaf vera að týna einhverju, sagði Ása þegar ég rétti henni kippuna. Við lögðum af stað inn en vorum greinilega ekki þær einu sem vorum seinar því úti á skólalóðinni stóð strákur í bláum stakk og hallaði sér makindalega upp að markstöng. Toppurinn féll yfir hægra augað. Mér fannst ég hafa séð hann áður úti að dóla sér þegar við hin þurftum að fara inn. Kannski var ekki tekið hart á skrópi í þessum skóla.

(29-30)