Um Gauragang
Endurútgefin: Mál og menning 1993 og 2010.
Úr Gauragangi
14
Mamma sótti mig í fángageymsluna. Hún sagði ekki neitt.
Það var alltaf verra þegar mamma sagði ekkert. Svipað því þegar veðurfræðíngurinn stendur lengi við kortið í snónvarpinu ánþess að segja neitt.
Hún hélt áfram að segja ekki neitt næstum alla leiðina heim. Ekki orð um heimsóknina í fángageymsluna. Ekki orð um þá reynslu að sjá son sinn vakinn þarsem hann lá undir teppi í fángaklefa og hraut.
Ég áttaði mig ekki alveg á henni. Við eðlilegar kríngumstæður hefði hún löngu verið byrjuð að hella úr skálum reiði sinnar.
Loks kom skýringin.
- Kærasti Gunnfríðar ætlar að koma í kvöldmat.
- Það eru þó tíðindi, sagði ég allshugar feginn að umræðian skyldi ekki snúast um afbrotaferil minn.
Þegar hún virtist ekki ætla að segja fleira spurði ég: Og hvernig líst þér á?
- Ég er ekki farin að sjá hann.
- Hann er kannski ósýnilegur?
- Pilturinn hríngdi af flugvellinum fyrir norðan fimm mínútum áðuren mér var tilkynnt að sonur minn sæti í fángelsi fyrir innbrotstilraun.
- Þetta var allt misskilningur mamma.
Ég þorði tæpast að líta framan í hana. Ég vissi að hún var að ýkja. Varla höfðu durgarnir farið að titla mig innbrotsþjóf þótt ég asnaðist uppí þennan djöfuls stiga. En auðvitað þurfti hún að vera með tárin í augunum þegar hún kom niður í klefann að sækja mig. Og ennþá voru einhverjar táradreggjar í augnkrókunum..
- Riddarinn á hvíta hestinum bara kominn í bæinn, sagði ég tilað dreifa huga hennar. Hvað vill hann?
- Hvað vilja karlmenn? Hvað vildir þú uppí stiga?
- Við vorum að æfa atriði úr Rómeó og Júlíu fyrir jólaballið.
(s. 67-68)