Gauti vinur minn

Útgefandi: 
Staður: 
Rekjavík
Ár: 
1996
Flokkur: 

Úr Gauti vinur minn:

Þegar við vorum búin að ganga spölkorn duttum við kylliflöt eins og einhver hefði brugðið fyrir okkur fæti. Og það var svo sannarlega rétt. Fyrir framan okkur stóð strákur með annan fótinn út í loftið. Við höfðum ekki tekið eftir honum og dottið um fótinn á honum. Þarna lágum við á maganum og fætur okkar dingluðu í því sem við héldum að væri dúandi ský. Þetta var skrítin tilfinning og við gátum ekki annað en hlegið. En þá var allt í einu eins og okkur væri kippt á fætur. Og nú stóðum við fyrir framan einkennilegasta strák sem við höfðum augum litið.
Hann var á stærð við Gauta.
Hann var með stórt prik í hendinni og klæddur í mikla, víða skikkju sem sveiflaðist til og frá eins og undir henni væri ryksuga sem blési og blési.
En það undarlegasta var að þessi skrítni strákur var með tvo hausa.
Annar hausinn var langur og mjór en hinn breiður og kinnamikill. Og svo var bara eitt auga í hvorum haus, hálfur munnur, eitt eyra og hálft nef. En einhvernveginn vissum við að ef við klesstum hausunum saman yrði strákurinn venjulegur eins og við.
-Aumingja strákurinn að vera svona, hvíslaði Gauti að mér.
Ég kinkaði kolli og svo störðum við á þennan bláa strák og komum ekki upp orði, eins og það væri stálflís föst í hálsinum á okkur.
-Hvað eruð þið að flækjast hingað í bláa heiminn? sagði langi hausinn á stráknum og augað í enninu á honum var mjög grimmilegt.
Munnurinn í breiða hausnum brosti svo skein í bláar, langar tennur.

(s. 47)