Gegnum þyrnigerðið

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1991
Flokkur: 

Verðlaunabók Verðlaunasjóðs íslenskra barnabóka 1991.

Káputeikningar: Búi Kristjánsson

Úr Gegnum þyrnigerðið:

Það gerðist fyrir árum og árum

 Dalurinn var djúpur og fjöllin umhverfis hann há og hrikaleg. Hæst voru þau í austri þar sem Illuhamra bar við himin. Þeir voru með öllu ókleifir.
 Vestanmegin lá leiðin eftir krókóttum stígum út úr dalnum, út í víða veröld. Þá stíga þræddu þeir sem vildu forframast og eftir sömu stígum komu ferðalangar sem heimsóttu dalinn um lengri eða skemmri tíma.
 Einn vorbjartan dag fyrir árum og árum kom svipmikill gestur eftir stígunum úr vestri. Óþyrmir hét hann og var hvasseygur og þögull, enda talaði hann ekki tungu fólksins sem fyrir var. Honum fylgdu fjórir þjónar forneskjulegir og bólgnir af illsku.
 Á einni nóttu hlóðu þeir Óþyrmi kastala á fegursta blettinum austan til í dalnum, Torgi ljóss og gleði. Þar hafði fólkið safnast saman á sumarkvöldum frá örófi alda og sungið við varðeld.
 Neisti reiðinnar tendraðist í brjósti þess sem fyrstur vaknaði morguninn eftir. Hún læstist eins og eldur um hvern af öðrum. Með steytta hnefa flykktust þeir upp að kastalanum og kröfðust þess að hann yrði rifinn niður aftur, stein fyrir stein.
 Óþyrmir stóð uppi við brjóstvörnina og horfði ísköldu augnaráði á fólkið. Hann virti það ekki svars.
 „Þú reistir þennan kastala í óþökk allra. Á morgun þegar við vöknum verður hann að vera horfinn,“ hrópaði mannfjöldinn.
 Þá hló Óþyrmir nístingsköldum hlátri sem smaug út í loftið og hríslaðist niður eftir bakinu á þeim sem til heyrðu. Öðru svaraði hann ekki.
 Aftur steyttu menn hnefana og hrópuðu hærra og hærra en fengu ekkert svar. Þá þögnuðu þeir og héldu heim.
 „Hann er hræddur. Við eru svo margir en hann er bara einn með þessa ótótlegu þjóna sína. Hann þorir ekki einu sinni að svara,“ sögðu þeir hver við annan.
 En morguninn eftir þegar þeir vöknuðu var austurhluti dalsins aðskilinn frá vesturhlutanum með þéttvöxnu þyrnigerði sem enginn komst yfir nema fuglinn fljúgandi. Fólkið austan þess var innilokað. Annars vegar við það voru ókleifir hamrar, hins vegar þyrnigerðið.
 Upp frá því töluðu íbúarnir um Austdal og Vestdal.

(s. 7-8)