Gestagangur

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1963
Flokkur: 

Frumsýnt í Þjóðleikhúsinu 1962. Gefið út á grísku 2002. 

Úr Gestagangi:

GUNNAR: Hvað mundi Ólafur gera, ef hann kæmist að þessu?
AUÐUR: Ég veit það ekki. Hann flíkar ekki tilfinningum sínum. Það er nú meinið. En ég held það yrði mikið áfall fyrir hann. Hann tilbiður mig, þó hann hafi aldrei getað vakið hjá mér sömu tilfinningar og þú.
GUNNAR (gremjulega): Nú, hvaða tilfinningar vekur hann þá hjá þér? AUÐUR (stendur upp og gengur að glugganum): Ég veit ekki hvort ég get lýst því, eða hvort þú átt nokkra heimtingu á að fá að vita það. (Stutt hlé.) En jæja, ég skal reyna að segja þér það. Ég held mér þyki vænt um hann einsog föður minn sáluga eða verndarenglana. Hann er fyrst og fremst góður og hrekklaus, og mér finnst ég vera örugg hjá honum. En hann kveikir aldrei í mér neina ástríðu.
GUNNAR: Hversvegna varstu þá eiginlega að giftast honum?
AUÐUR: Ég hef margsagt þér að það var fljótræði. Ég var óreynd og hann tilbað mig. Ég hafði aldrei orðið ástfangin, vissi varla hvað ást var, en ég var viss um að ég gæti lært að elska hann eða að minnstakosti vera honum góð eiginkona. Hann bauð mér allt sem ég gat helzt kosið mér, fallegt heimili, ástríki og örugga framtíð. Ég sagði honum strax einsog var, að mér þætti vænt um hann, en það væri ekki ást. Og við ákváðum að eignast ekki börn fyrstu árin ... ekki fyrr en ég væri alveg örugg um tilfinningar mínar. Pabbi og mamma voru líka himinlifandi yfir þessu. Þau höfðu mikið dálæti á honum. Kannski var það mest til að gleðja þau sem ég gerði þetta. Þau voru víst alla tíð dálítið kvíðin útaf framtíð minni, afþví ég var ódæl og duttlungafull sem barn. Þessvegna var þeim sérstakt keppikefli að ég eignaðist góðan og ráðsettan mann, sem gæti varið mig fyrir boðaföllum lífsins. Þú sérð hvernig farið hefur um varnirnar. En mér þykir samt vænt um að ég gladdi pabba með þessu, áður en hann dó.
GUNNAR (er staðinn á fætur og stendur hjá henni): Já, forlögin láta víst ekki segja sér fyrir verkum. (Tekur um axlir henni og þrýstir henni til sín). Stundum finnst mér einsog ég hafi engin ráð yfir mínu eigin lífi ... einsog mér sé kastað hingað og þangað af einhverjum máttugum öflum útí geimnum.
AUÐUR (horfir framaní hann): Ég held nú að þessi öfl séu í okkur sjálfum, en þau eru ekkert miskunnsamari fyrir það ... og þó, þau hafa gefið okkur margar yndislegar stundir saman. (Leggur höfuðið á öxl honum.) Finnst þér það ekki?
GUNNAR: (strýkur henni um hnakkann): Jú, margar ógleymanlegar stundir ... (Lítur í augu hennar.) Og allt vegna þess að ég áræddi að fylgja þér heim úr þessu fræga boði, þegar Ólafur var útí Höfn.

(s. 27-29)