Gestir utan úr geimnum

Gestir utan úr geimnum, Ævar Þór Benediktsson
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2017
Flokkur: 

Bókin er nr. 3 í bókaflokkinum um bernskubrek Ævars vísindamanns.

Rán Flygenring myndskreytti.

um bókina

Þegar Ævar vísindamaður var alveg að verða tólf ára gerðist svolítið hræðilegt: kisinn hans, hann Einstein, hvarf sporlaust. Fljótlega kom í ljós að það var ekki bara Einstein sem var horfinn, heldur öll gæludýr á höfuðborgarsvæðinu!

Og til að gera vont verra brotlenti risastórt geimskip í miðri Öskjuhlíðinni, stútfullt af stórhættulegum geimverum! Eða var það ekki annars?

Úr bókinni

Einhvern tíman hafði Ævar búið til lista yfir allt sem hann var hræddur við.

Hér er listinn:

1.   Snareðlur
2.   Mamma þegar hún er reið
3.   Geimverur

Þegar hann var lítill hélt hann að hann myndir bara þurfa að óttast númer 2 en lífið á það til að koma manni á óvart. Ævar starði á opnar dyrnar á geimskipinu. enn sem komið er hafði ekkert meira gerst. Hann hafði samt engan áhuga á því að hinkra og athuga hver myndir gægjast út.

"Við verðum að komast í öruggt skjól!" hrópaði Elenóra og reyndi að yfirgnæfa lætin í geimskipinu.

"Hver á heima næst Öskjuhlíððinni?" veinaði Anna Margarita. Embla og úlpan hennar réttu upp aðra ermina og hópurinn hljóp af stað. Suðið í geimskipinu varð sífellt hærra og hærra og krakkarnir þurftu að halda fyrir eyrun á meðan þau hlupu.

Ef þú hefur einhvern tíman reynt að halda fyrir eyrun á meðan þú hleypur veistu að það er stórhættulegt. Ef þú skyldir óvart detta hefurðu varla tíma til að bera fyrir þig hendurnar og þú gætir lent á andlitinu. Sem betur fer flaug enginn á höfuðið en það munaði litlu að Ævar klessti á umferðarljós þegar hann laumaðist til að líta um öxl og athuga hvort einhver hefði ákveðið á gjugg-í-borg-ast út um dyrnar. Það sást enginn.

Það eina góða í þessum aðstæðum var að sushi-bitarnir virtust allir skjótast úr vasanum á úlpunni hans - þá þurfti hann ekkert að hugsa um þá lengur.

Embla beygði inn litla götu neðst í Öskjuhlíðinni og stökk að fyrsta húsinu, reif upp útidyrahurðina og krakkarnir köstuðu sér inn. Úti virtist suðið vera að ná hámarki. í smástund heyrðist ekkert annað en skerandi hátíðnihljóð.

Svo datt allt í dúnalogn.

Krakkarnir lágu á gólfinu og störðu móð hvert á annað.

Embla renndi niður rennilásnum á úlpunni og lét hettuna síga. Loksins sást almennilega framan í hana. Hún var með gleraugu og eldrauð í framan af hlaupunum. Anna Margarita leit á Elenóru. Þær vissu ekki hvort þær ættu að hlæja eða gráta.

"Vá," sagði Anna Margarita loks og lagaði sín gleraugu. "Þetta var svakalegt". Þær litu hvor á aðra og brostu fegnar.

Nema Ævar.

(s. 81-83)