Geta englar talað dönsku?

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1996
Flokkur: 


Úr Geta englar talað dönsku?:

10. bekkur C er hættur að hlusta.
Loks kveður stjóri og fer út en nýi kennarinn tekur við. Hann brosir svo að skín í hvítar tennur.
„Komið þið sæl,“ segir hann hljómmikilli, dimmri röddu. „Þið verðið að koma mér af stað.
Hvar eruð þið stödd í námsefninu?“
Stebbi er fyrstur til og fullyrðir að þau hafi verið að byrja á bókinni en þeir Jonni og Ásgeir láta hann ekki komast upp með það og upplýsa kennarann um að þau séu stödd í miðri bók.
„Kennarasleikjur,“ tuldrar Stebbi.
Böðvar er hár og grannur með dökkt hár og svört augu. Hann er í bláum gallabuxum og rúllukragapeysu. Erna horfir á hann og tímir varla að depla auga. Samt sér hún að allir stara á nýja kennarann. Hún sér að sendibréfin eru farin að þyrlast um bekkinn og hún veit að Böðvar er að fá einkunnir. Böðvar er að kenna en það skiptir bara engu máli. Það er kominn nýr kennari og hann er ekki vitund líkur hinum. Erna þarf ekki að bíða lengi eftir bréfi frá Dóru:

Erna, hann er æði. Hann er bara tú gúd tú bí trú. Hann skal vera eins og hinir. Hann verður settur í próf á eftir. Bæ.

Erna veit að Dóra hefur eitthvað sérstakt í huga – og ekki í fyrsta skipti.
Það þarf að styðja Ásdísi út þegar tíminn er búinn.
„Hann er æði,“ stynur hún, „sáuði fötin?“
„Hann er að minnsta kosti ekkert líkur hinum – fíflunum,“ fullyrðir Ásta rjóð í framan. „ÆÐI.“
„Mér sýnist hann bara venjulegur – rengla,“ segir Stebbi. Enginn hlustar á hann.
„Hann er áreiðanlega eins og hinir – asnarnir. Ég skal prófa hann - ég skal prófa hann svo um munar,“ segir Dóra æst og lítur í kringum sig. „Ég skal baka hann.“ „Ætlarðu…“ „Þorirðu…“ „Ertu biluð – kreisí?“ Stelpurnar stara á Dóru í undrun og aðdáun. „Ji, ætlar hún?“ hvíslar Birna að Ernu þegar Böðvar hleypir þeim inn í stofuna í næsta tíma. „Örugglega,“ heldur hún áfram, „manstu hvernig hún fór með Sigga sögu?“ Erna man vel eftir því. Hann varð aldrei samur maður í kennslunni eftir að Dóra tók hann í bakaríið.

(s. 37-39)