Grikklandsgaldur

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1992
Flokkur: 

Ljósmyndir: Bragi Þór Jósefsson.

Úr Grikklandsgaldri:

Liðnir eru rífir fjórir áratugir síðan ég steg fyrst fæti á gríska grund í júnímánuði 1951. Vel má svo til orða taka, að stefnumótið við Grikkland hafi verið ást við fyrstu sýn og reynst staðfastari en aðrar ástir ævinnar. Hún gagntók mig og gerbreytti bæði lífsskynjun og lífsferli.
Hef ég ekki verið samur maður síðan. Á hinn bóginn eiga Grikklandsástir það sammerkt við aðrar og nærtækari ástir, að þær hafa ekki verið óslitinn dans á rósum. Skiptst hafa á skin og skúrir einsog verkast vill. Stundum hefur ástarþelið þokað fyrir pirringi eða vanþóknun á einhverju í fari elskandans (snákum í grassverði, ásæknum skorkvikindum, óvæntu skýfalli) eða upp hefur komið missætti útaf smámunum (prettum leigubílstjóra, stirfni möppudýra, hortugheitum þjóna) sem jafna varð með gagnkvæmum skilningi og umburðarlyndi. Hvernig sem veröldin veltist tókust ævinlega góðar sættir eftir tímabundna fáleika, enda get ég með góðri samvisku fullyrt, að næst fósturjörðinni þyki mér ekki vænna um annan blett á heimskringlunni en Grikkland.

Tilefni stefnumótsins var hátíð sem gríska kirkjan efndi til í minningu þess að liðin voru 1900 ár síðan Páll postuli stofnaði fyrstu kristnu söfnuði Evrópu á ýmsum stöðum í Grikklandi, meðal annars í Kórinþu, Þessalóníku, Filippí og Efesos. Sex bréf hans til þessara fjögra safnaða eru meðal helgirita Biblíunnar. Til hátíðarinnar var boðið fulltrúum nálega allra kirkna og kirkjudeilda veraldar, jafnt prelátum sem leikmönnum, og skal ekki frekar fjölyrt um hana hér, enda er þriðji kafli í fyrstu bók minni, Grískum reisudögum (1953) helgaður henni.

Aleiga mín á því skeiði hafði rétt hrokkið til að greiða farareyrinn suðurábóginn og vægast sagt tvísýnt um heimförina, en í léttlyndi æskunnar gerði ég mér bjartar vonir um að finna skiprúm á einhverjum norrænum fararkosti og fá unnið fyrir farinu norður að þriggja vikna kostnaðarlausu hátíðarhaldi loknu. Góðu heilli og alls óvænt fór það á annan veg og betri. Leiðtogi gríska æskulýðshópsins á skipinu, sem flutti okkur pílagríma milli staða, kom einn góðan veðurdag að máli við mig og spurði hvort ég hefði hug á að dveljast lengur í landinu (seina heyrði ég að hann hefði staðið í þeirri meiningu að ég væri skotinn í einni grísku ungmeyjanna, sem var hepilegur misskilningur). Ekki gat ég með góðu móti svarið fyrir að það hefði margsinnis hvarflað að mér, en á því væri sá hvimleiði hængur að ég væri með öllu févana og útvegslaus. Því mætti að hans dómi kippa í liðinn: hann væri í vinfengi við erkibiskupinn í Aþenu og gæti að öllum líkindum útvegað mér klausturdvöl á vetri komanda. Tók ég þeirri hugmynd vitaskuld fagnandi og hann hét að ganga í málið við fyrsta hentugt tækifæri. Ég átti enn langt í land með að gera mér grein fyrir þeim viðsjála eiginleika margra Grikkja að vera örari á fyrirheit en efndir.

(5-6)