Hálfgerðar lygasögur með heilagan sannleika í bland

hálfgerðar lygasögur
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2021
Flokkur: 

Um bókina

Guðbergur Bergsson hefur einstaka sýn á mannlegt eðli og samfélag. Hér má lesa sögur úr blöndu fyndni og sársauka, sannleika og uppspuna. Þegar lesandinn heldur að hann hafi áttað sig á hvert stefnir er honum komið í opna skjöldu með óvæntum snúningi, órum, háði, sannleika eða skyndilegri viðkvæmni.

Guðbergur hefur gjarnan farið ótroðnar slóðir í verkum sínum og sett mark á íslenskar bókmenntir. Hann hefur skrifað skáldsögur, smásögur, ljóð, barnabækur, skáldævisögur og hlotið ýmiss konar viðurkenningar fyrir bækur sínar, hérlendis og erlendis.

Úr bókinni

Fagurfræði ritlistar

Hin persónulega fagurfræði skáldsagnahöfundar er aðferð gegn öllu nema því að lúta eigin þörfum fyrir að koma efninu frá sér. Þannig er sú ritlist sem getur verið frjáls og framandi með sínum hætti á hverjum tíma mótuð af því sem innra með höfundinum býr. Það merkir að efnið hefur farið um hugmyndaheim þess sem skrifar. Fyrir bragðið er allt frá höfundi skáldsögu ævisaga hans, enda er ævisaga manns ekki bara skráning þess sem hefur gerst og hann hefur þolað í lífinu heldur líka hugsanir hans. Að hugsa er þáttur í ævisögunni og jafnvel nátengdara en reynsla hans á öðrum sviðum á ferðinni í gegnum lífið; maðurinn hugsar meira en hann aðhefst. Ævisagan er einnig það sem er yfirleitt ekki talið til sögu heldur litið á sem tæting og rugl í höfðinu. Það minnir með vissum hætti á flökt norðurljósa þegar veðráttan er þannig að sérstöku ljósin kvikna í myrkri að næturþeli, aldrei á daginn í birtu. Svipað þarf að vera í hugarvídd skáldsins þar sem hliðstæða norðurljósa getur gert vart við sig allan sólarhringinn. Hún krefst ekki sérstakra aðstæðna myrkurs eða birtu. Höfundur skáldskapar sér efnið á ýmsan hátt, sumt með berum augum, annað með skynjuninni, þriðja með viðhorfi en ekki síst vitsmunum sínum. Þá er haft í huga hvernig frásagan hefur verið í Íslendingasögunum og öðru úr sagnalist á meginlandi Evrópu í nútíð og fornöld eftir að ritlistin greindist frá ræðulistinni og margvísandi skáldskapur spratt samfara endurreisn á Ítalíu, einkum í borginni Flórens. Í skáldskap fór saman í ritaðri heild orðlistar staðreyndir og tilbúningur í bland við uppreisn gegn þeim tómleika sem er kenndur við svokallaðan veruleika, sannindi eða raunsæi. Skáldskapur er ekki skráning heldur andleg efni úr höfði þess sem er ekki vitni að atburði eða viðstaddur eitt eða neitt heldur stendur hann á sinn andlega hátt ofar megninu af því sem gerist á jafnsléttu.

(s. 35-36)