Hallærisplanið

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1982
Flokkur: 

Úlfar Valdimarsson myndskreytti.

Úr Hallærisplaninu:

 En tíminn lætur ekki að sér hæða. Fyrren varði hafði hann kysst hana góða nótt; og stóð í slyddunni og slabbinu á ófrágengnu bílastæði blokkarinnar. Húfu- og vettlingalaus með sogblett á hálsinum: innsigli ástarinnar. Það þýddi trefil um óákveðinn tíma. Og hann sem þoldi ekki trefla.
 En samt leið honum eitthvað svo undarlega vel. Honum hafði aldrei áður liðið eins vel. Það skipti hann engu máli þóað veðrið væri vont; snjór og bylur, ís og myrkur: hann flaug í gegnum skaflana og hitti ljósastaur í hverju skoti. Hann var greinilega ástfanginn í alvöru í fyrsta skipti á ævinni.
 Svona var þá að vera ástfanginn. Hann hafði oft verið skotinn í hinum og þessum stelpum. En aldrei svona. Hann sá þau fyrir sér; þau mundu eiga heima í gömlu húsi í Vesturbænum sem búið var að gera töff. Flottan bíl. Það yrði miklu skemmtilegra að fara í sunnudagsbíltúr með Stínu og börnin... Börnin?... Pabbi?... Það yrði skrýtið að verða sjálfur pabbi. Hann ætlaði að vera miklu skemmtilegri við sín börn en pabbinn var við hann. Ekki eyða samverustundum sínum með fjölskyldunni á bakvið Moggann.
 Nei hei Eiki, - hvað ertu að hugsa maður? Farinn að plana hlutina langt frammí tímann? Hann hlaut að vera orðinn vitlaus. Það var ekkert víst að hann og Stína giftust og allt það. - En hann vonaði það. Hann ætlaði allavega að senda henni kveðju í Lög unga fólksins. Næsta þátt. Hún myndi fíla það. Best að skrifa strax og ég kem heim, hugsaði hann og fór að pæla í því hvernig kveðjan ætti að vera:
 Stína í 8-X fær geggjaðar stuðkveðjur... nei, það var alveg glatað... Stína í 8-X fær poppaðar rommíkveðjur frá...

(s. 41-42)