Handbók um minni og gleymsku

Handbók um minni og gleymsku
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2017
Flokkur: 

Um bókina

Í Handbók um minni og gleymsku renna húmor og heimspeki, fegurðarþrá og frásagnagleði saman í frumlegan seið. Bréfaskipti fyrrverandi elskenda, furðuleg ökuferð um úthverfi Reykjavíkur, harðar deilur í húsfélagi, flóttatilraun drengs úr sveit, kjarnorkusprengjur, skjaldarmerki, engiferrætur ...
   Handbók um minni og gleymsku vekur bæði kátínu, áleitnar spurningar og óvæntar tilfinningar. Þetta er bók sem lesandinn mun ekki gleyma svo auðveldlega.

úr bókinni

Dramatúrgía virðist vera það síðasta sem fólki dettur í hug þegar það leitar skýringa á því hvernig komið er fyrir einhverjum - jafnvel þeim sjálfum. Reynsla mín er sú að almenningur hafi sjaldnast nægjanlegt ímyndunarafl til að geta sér til um raunveruleikann, hvað þá það sem fram fer að tjaldabaki. Flest fólk sér í raun ekki annað fólk heldur aðeins spegla - spegla sem birta því einungis tvífara þess sjálfs; það heldur að hinir hugsi eins og það, óttist það sama, elski á sama hátt. Þetta er ástæða þess að hættan á því að dramatúrginn verði afhjúpaður er í raun ekki mikil. Þó skal það undirstrikað að þá hættu skyldi ætíð taka alvarlega.
   Þrátt fyrir - eða kannski einmitt vegna þess - hversu mikla virðingu ég ber fyrir dramatúrgíu þá er það því miður niðurstaða mín að flestir starfsbræður mínir og -systur séu í besta falli amatörar, áhugamenn, en í versta falli hreinir fúskarar, sem sjást ekki fyrir, æða áfram í störfum sínum án yfirsýnar, úthalds eða ábyrgðar. Þetta tel ég að dæmin sanni. Þetta tel ég að hver dramatúrg sem þorir að horfa í kringum sig, hvað þá lesa slúðurblöð og/ eða netmiðla, hljóti að sjá. Sönnunargögnin eru af mörgum gerðum: Fíknivandi án lausnar, framhjáhald án framvindu, einmanaleiki án vonar, skilnaðir án breytinga, já, sannarlega eru sönnunargögnin fyrir ófaglegri dramatúrgíu á hverju strái. Dramatúrg sem lærir ekki af floppunum er ekki starfi sínu vaxinn og því undanskil ég ekki úr þessu dæmasafni það að fá tvö jólakort, eitt frá hvoru fósturforeldra sinna.

(s. 30-31)