Handritið að kvikmynd Arnar Featherby og Jóns Magnússonar um uppnámið á veitingahúsinu eftir Jenný Alexson

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2010
Flokkur: 

Um bókina

Þegar Chas Featherby, aldraður sjómaður í Hull, deyr, bíður sonar hans á Íslandi, Arnar Featherby, óvæntur arfur: tæplega tvö hundruð skópör. Um svipað leyti fá Örn og félagi hans Jón, sem lærði kvikmyndaleikstjórn í Prag en starfar sem bókavörður í Hafnarfirði, langþráð tækifæri upp í hendurnar: vilyrði fyrir styrk frá gömlum skólafélaga, lyfsalanum Alfreð Leó, til að framleiða leikna bíómynd.

Til að ná í föðurarf Arnar ákveða þeir félagar að ferðast saman til Englands - sjóleiðina - og í farangrinum eru drög að kvikmyndahandriti. Atburðarásin sem þá fer af stað er skráð af Jenný Alexson, fyrrum mágkonu Jóns.

Úr Handritinu að kvikmynd ...

Varðandi skópörin á ég sem kona satt að segja svolítið erfitt með að ímynda mér hvernig karlmaður á ofanverðum sjötugsaldri - fremur nægjusamur maður eins og ég þykist vita að Örn Featherby sé - tekur slíkri frétt að hann sé allt i einu orðinn eigandi að tæpum tvö hundruð pörum af mokkasíum, sem að sögn eru ekki aðeins fyrsta flokks heldur líka í réttu númeri. En eins og Örn útskýrir fyrir Jóni, þegar sá síðarnefndi undrast áhuga félaga síns á að eltast við skófatnað látins föður síns - hvað hefði fullorðinn maður að gera við eitthvert fáránlegt umframmagn af skóm? - þá hafi hann, Örn, ekki hugsað sig um tvisvar þegar hann ákvað að ná í arf sinn eftir föðurinn, og ástæðurnar fyrir því séu að minnsta kosti tvær. Í fyrsta lagi hversu skemmtilega andstætt allri heilbrigðri skynsemi það sé að leggja á sig fjögurra eða fimm daga ferð með skipi til að ná í tæp tvö hundruð skópör sem maður hefur örugglega ekkert að gera við, og í öðru lagi langi hann til að sjá hvernig faðir hans bjó, hann hafi haft spurnir af sérviskulegum lifnaðarháttum hans og bókmenntaáhuga - þær óljósu fréttir bárust reyndar eftir heldur einkennilegri leið: í gegnum umfjöllun íslensks blaðamanns sem skrifaði grein um atvinnuástandið í Hull og Grimsby fyrir um það bil aldarfjórðungi.

En nánar um það síðar. Í kafla fimm. Það snertir nefnilega svolítið sem sagt er frá í kaflanum á undan, þeim fjórða. Ég á hins vegar síður en svo bágt með að skilja áhuga Arnar á að fara til Hull. Að frátöldum kostnaðinum við að ferðast þangað, og dvelja þar - hann gerir auðvitað ekki ráð fyrir að þurfa að borga fyrir svefnpláss - hafi hann engu að tapa, eins og hann orðar það við Jón. Þar fyrir utan eigi hann ekki á hættu að hitta föður sinn - in the flesh, það er að segja.

(s. 16-17)