Hanna María og pabbi

Útgefandi: 
Staður: 
Akureyri
Ár: 
1972
Flokkur: 


Úr Hanna María og pabbi:

16

Vinir

- Við erum vinir, sagði Hanna María allt í einu.
- Við hver? spurði afi.
- Ég, Neró og kennarinn.
- Það er gott vina mín að þér lýzt strax svona vel á kennarann þinn.
- Svo ætlar hann að heimsækja ykkur fljótt, þið verðið að vera fín, þegar hann kemur, hann er svo fínn sjálfur.
 Afi hló bara og sagði, að það væri alveg nóg að hún héldi sér til fyrir honum.
 Hanna hafði allar bækurnar með sér í rúmið, það var varla að nóg pláss væri fyrir kisa, enda líkaði honum ekki vel að hafa ekki sína holu í friði. Loks færði hann sig til fóta og hreiðraði um sig þar, þá fyrst fór svo vel um hann, að hann gæti farið að mala.
 Allt í einu skellti Hanna aftur bókinni sem hún var að lesa.
 - Afi, sagði hún. Hvar er pabbi minn?
 Æ, þar kom að því, hugsaði afi, nú verður amma að koma til skjalanna.
 - Hver er hann? spurði Hanna aftur.
 - Ég veit ekki hvar hann er, sagði afi.
 - Nú, jæja mér er alveg sama, ég þarf engan pabba, en kennarinn var að spyrja hvar hann væri.
 Hanna taldi að þetta væri útrætt mál og fór aftur að lesa, afa til mikils léttis.

(s. 49-50)