Haust í Skírisskógi : skammdegisprójekt

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1980
Flokkur: 


Úr Haust í Skírisskógi:

Þeir kaupmenn bræður mega líklega teljast fremur farsælir menn hvor á sinn hátt, og einkum hlýtur að vera hagkvæmt og ánægjulegt fyrir Inga bróður að skafa allan sinn arð undan nöglunum á þeim sem honum þykjast andsnúnastir.
Litli Jón skrafar um þetta yfir kvöldkaffinu, og kveður þá við úti í horni, það er Hrói sjálfur og segir dagsatt: Já, hvað annað, við lifum í firrtu verðbólguþjóðfélagi ... Kjörin móta manninn.
Er þetta ekki bara kapítalískur afrakstur hins róttæka þroska, uppfylling heillandi frelsisboðskapar sem sumir þekkja úr fari sumra, segir Vilhjálmur skarlat eins og út í bláinn. Blóðlykt af því öllu. Áður aðhylltust menn hugsjón. Nú elta menn tízkuduttlunga undir yfirskini hugsjónar.
Og meira nöldur.
Ég elska friðinn og álpa út úr mér, sáttfús og falskur: Skrautgirnin virðist nú reyndar eðlislæg allri skepnu. Hvernig er ekki öll náttúran ef hún fær að dafna í friði, haf og land og himinn, plöntur og dýr, hvert sem litið er, eintóm sundurgerð með litaskrauti og tælandi dásemdum. Sjáið randafluguna og gullfiskana og hænsnin; meira að segja hrafnar eru yfirtak glysgjarnir; ef til vill er tilhaldssemin hvergi meiri en í frumstæðustu villimannasamfélögum. Þetta er eðlið; það ætti hver maður að geta séð. Allt er þetta af einni rót fætt. Náttúran öll og eðli manns, stendur einhversstaðar.
Gáfulegt ...
Gat nú skeð að hann kæmi með eðlið, svarar Hrói og bætir við: Ekki vaxinn upp úr ...
Hegel.
Jósef í sínu horni: Þettar er alveg hreina satt hjá piltinum, ekki spara þau að móta mann, þessi lífskjör. Ég fyrir mitt leyti held við kerlingu sem er eiginlega alveg að fara með mig, svo ég er að hugsa um að flytja mig og mitt dót út í skúr ...

(s. 84-85)