Hershöfðinginn í völundarhúsi sínu

Þýðandi: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1989

Um þýðinguna

El general en su laberinto eftir Gabriel García Márquez í þýðingu Guðbergs.

Úr Hershöfðingjanum í völundarhúsi sínu

Hún hitti hann þar sem hann flaut á bakinu í ilmandi vatni baðkarsins, án aðstoðar frá Jose Palacíos, og að hún héldi ekki að hann væri dauður stafaði af því að hún hafði oft séð hann hugsa í þessari dýrlegu stellingu. Hann þekkti hana á fótatakinu og ávarpaði hana án þess að opna augun.

Það verður gerð uppreisn, sagði hann.

Hún leyndi ekki reiðinni með kaldhæðni.

Til hamingju, sagði hún. Þær geta orðið jafnvel tíu, enda bregðist þér prýðilega við aðvörunum.

Ég trúi aðeins á fyrirboða, sagði hann.

Hann leyfði sér þessi leikaralæti vegna þess að formaður herráðs hans, sem hafði sagt samsærismönnum einkunnarorð næturinnar svo þeir gætu platað hallarvörðinn, hafði gefið hönd sína upp á það að samsærið hefði mistekist. Þess vegna kom hann kátur upp úr baðkarinu.

Hafið engar áhyggjur, sagði hann, svo virðist sem rallinn hafi kólnað á kynvillingunum.

Þau voru að byrja að engjast af ást í rúminu, hann nakinn en hún hálfklædd, þegar þau heyrðu fyrstu hrópin, fyrstu skotin og fallbyssudrunurnar gegn einhverri löghollri herbúð. Manúela hjálpaði honum við að klæða sig í skyndi, færði hann í vatnsheldu hlífarnar sem hún var í yfir skónum, vegna þess að hann hafði sent einu stígvélin sem hann átti til að láta bursta þau, og hún hjálpaði honum að sleppa eftir svölunum með sverð og skammbyssu, en hann var hlífðarlaus gegn eilífri rigningunni. Um leið og hann kom út á götu miðaði hann byssunni með spenntan gikkinn að skugga sem nálgaðist hann. Hver er þar! Þetta var kökubakari sem sneri heim, harmþrunginn yfir fréttinni um að húsbóndi hans hefði verið drepinn. Nú ákvað hann að deila örlögum sínum endanlega með honum og þeir földu sig í kjarrinu við Carmenbrúna yfir Læk heilags Ágústínusar, uns löghlýðin lið bældu uppreisnina niður.

(s. 44)