Heykvísl og gúmmískór

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1991
Flokkur: 

Úr Heykvísl og gúmmískór:

Draumsaga (brot)

Og enn ber margt í drauma, í þetta sinn er það undirheimslegur blendingur af sæfíl og gleraugnaslöngu sem liggur hvæsandi og másandi framan við eldhússkápana í gamla húsinu þar sem ég var barn, og ég styðst við borðið í króknum, hálflamaður af ugg, með ryðgaða hákarlasveðju í vinstri hendi. Skápshurðirnar eru dimmgrænni en nokkru sinni fyrr og ég veit að bak við þær er púðursykur í stórum tinstauk sem sæfílsgleraugnaslöngunni gæti þótt góður, en inn um gluggann sytrar síðdegisbirta hausts, og grillir í svarblá fjöllin yfir húsþök. Ófreskjan hvæsir enn, ég stíg hikandi fram og bregð sveðjunni, slæmi henni á svíra hennar, en þar er seigt undir, margra ára gamalt spiklag og ég fer að saga og sarga meðan skepnan vindur upp á sig og orgar. Sem betur fer flugbítur þessi hákarlasveðja, og loks veltur hausinn gaddtenntur af bolnum. Ég sparka honum inn á dimman ganginn, en í sömu svipan vex nýr og sýnu ljótari haus á strjúpann. Þetta gerist í þrígang, og sveðjan tekin að slævast, ég er orðinn gljáandi sveittur einsog gamall kyndari á gufuskipi. Aldrei hef ég frið fyrir þessum helvítis afskræmum, hugsa ég í þessum draumi, en þá verða umskipti einsog gagnsærri hendi sé veifað, ég er kominn inn fyrir bæinn og húsin sjást í fjarska með litsterku bárujárnsþökin sín. Það er ekki lengur síðdegi heldur morgunn, hlý og notaleg sól og ég er með háf búinn til úr nælonsokk og hvíta skúringafötu og er að rölta meðfram lygnum og slýgrónum skurði. Hornsílin eru nývöknuð og heldur óánægð með þessa truflun, nema eitt ævagamalt hornsíli sem fær hláturkrampa þegar nælonsokkurinn kemur ofan í vatnið; það flýtur ofurhægt niður skurðinn með kviðinn upp og hefur sprungið af hlátri. Og með það vakna ég, en þá hefur tíminn undið sig aftur um tuttugu ár og ég er í sveit hjá henni ömmu minni og finn ilm af góðu sterku barnakaffi berast inn í herbergið og svo kemur hún með bakka og á honum er bolli fullur af þessu rjúkandi heita kaffi og heimabakað rúgbrauð á diski.

(s. 8-10)