Himnaríki og helvíti

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2007
Flokkur: 

Af bókarkápu:

Sagan gerist fyrir meira en hundrað árum, fyrir vestan, inni í firði, á milli hárra fjalla, eiginlega á botni heimsins, þar sem sjórinn verður stundum svo gæfur að það er hægt að fara niður í fjöru til að strjúka honum.

Strákurinn og Bárður róa um nótt á sexæringi út á víðáttur Djúpsins að leggja lóðir. Þar bíða þeir fram á brothættan morgun eftir fiskinum sem hefur synt óbreyttur um hafið í 120 milljón ár. Þótt peysurnar séu vel þæfðar smýgur heimskautavindur auðveldlega í gegn. Það er stutt á milli lífs og dauða, eiginlega bara ein flík, einn stakkur.

Úr Himnaríki og helvíti:

V

Það er lygilega gott að hafa fast land undir fótum. Þá hefur maður ekki drukknað og getur fengið sér að borða eftir tólf tíma úti á Íshafinu, inni í hvassvirðinu og tættri snjókomunni. Étið margar brauðsneiðar af rúgbrauði með haug af smjöri og kæfu og drukkið kolsvart kaffi með púðursykri. Það verður tæpast betra. Hungrið farið að naga menn að innan, þreytan titrandi í vöðvum, á slíkri stundu er kaffi og rúgbrauð sjálft himnaríki. Og síðan, þegar búið er að gera að aflanum, nýr, soðinn fiskur með mörfloti. Hamingjan er að fá sér að borða, að hafa sloppið frá óveðrinu, komist í gegnum brimskaflana sem drynja rétt undan landi, að hitta á rétta sekúndubrotið til að sigla þar í gegn, annars steypir brimið bátnum eða fyllir hann og þá eru sex ósyndir menn í sjónum og 200 dauðir fiskar, aflinn ónýtur og talsverðar líkur á því að mennirnir drukkni, en Pétur er snillingur, hann þekkir andartakið, þeir renna í gegn og eru sloppnir.

(bls. 76)