Hinir réttlátu

Hinir réttlátu
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2013
Flokkur: 

Um bókina

Kunnur athafnamaður á miðjum aldri finnst myrtur á golfvelli á Suðurlandi. Sama dag hefst æsileg atburðarás í Reykjavík. Sprenging verður í hvalveiðiskipi sem liggur í höfninni og hópur ungmenna stendur fyrir mótmælum við veitingahús sem hafa hvalkjöt á matseðlinum.

Fámennt lögregluliðið hefur í nógu að snúast og ekki bætir úr skák að Særós, sem yfirmaðurinn Guðgeir treystir mjög á, er ekki eins yfirveguð og hún á að sér.

Úr bókinni

Mínúturnar siluðust áfram eða svo fannst Særós þar sem hún sat í kyrrstæðum lögreglubílnum. Stórum hluta svæðisins á milli Örfiriseyjar og Hörpu hafði verið lokað fyrir umferð. Við hlið lögreglubílsins sem hún sat í voru sjúkrabíll og slökkviliðsbíll. Augu Særósar beindust að skipinu sem lá næst landi, það rétt grillti í hin tvö hvalveiðiskipin sem lágu samsíða því við bryggjuna. Virtust óttalegir ryðdallar. Hún átti erfitt með að ímynda sér að hægt væri að sigla á þeim, hvað þá veiða risaflikki eins og hval.
   Á bryggjunni var annar slökkviliðsbíll auk bílsins sem sprengjuleitarmennirnir höfðu til umráða. Búið var að slökkva eldinn. Kafararnir, sem nú voru eflaust að svamla við kjöl skipanna, höfðu komið annars staðar að. Særós opnaði litla rifu á gluggann og lögreglumaðurinn við hlið hennar horfði ásakandi á hana. Þeim hafði verið skipað að halda sig í bílnum og draga ekki niður rúðu.
   - Ég er að kafna, sagði hún afsakandi. Í sannleika sagt langaði hana bara til að átta sig á andrúmsloftinu þarna úti en eins og hana grunaði heyrðist ekkert, það var dúnalogn eins og á undan óveðri. Særós dró andann djúpt og brosti „mér líður betur-brosi“ til félaga síns til að sýna honum svart á hvítu að hún hefði þurft á súrefni að halda. Dró svo upp rúðuna og horfði í hundraðasta skiptið í kringum sig á stór auglýsingaspjöldin frá hvalaskoðunarfyrirtækjunum með myndum af hvölum og lundum ásamt tíma og verði skoðunarferða. Augu hennar hvörfluðu frá vinsælu hóteli sem stóð við götuna og niður á milli lítilla veitingastaða á hafnarbakkanum og verslana sem greinilega voru ætlaðar ferðamönnum. Hvergi var hreyfingu að sjá því svæðið hafði verið rýmt á mettíma eftir að tilkynningin barst. Hún gretti sig því að inn í bílinn hafði borist steikingalykt frá agnarlitlu húsi sem eitt sinn hýsti hafnarvogina.
   Myndir af krúttlegum lundum voru áberandi á svæðinu, það var puffin-þetta og puffin-hitt í öllum gluggum og á auglýsingaspjöldum. Af hverju heldur fólk áfram að nota lunda í auglýsingar þegar stofninn er í sögulegu lágmarki og hvernig stendur eiginlega á því að enginn berst fyrir tilverurétti fuglsins sem er örugglega í mun meiri útrýmingarhættu en hvalurinn sem er úti um allan sjó étandi fiskinn okkar? Særós ætlaði að fara að benda á þessa mótsögn þegar félaginn tók af henni orðið og benti út um framrúðuna.
   - Sjáðu, þessi á dekkinu veifar, sagði hann. Særós minnti að félagi hennar héti Jón. Geðþekkur, rauðbirkinn náungi sem var nýbyrjaður í rannsóknardeild. Virtist rétt rúmlega þrítugur og greinilega duglegur að lyfta lóðum, í léttvigt. Ekki of duglegur samt, til þess var hálsinn of langur. - Ég sé ekki betur en að hann sé að gefa merki um að allt sé í lagi, sagði Jón, ef hann hét þá Jón. Hún var ekki viss.

(s. 37-38)