Á hjólum

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1991
Flokkur: 

Úr Á hjólum:

Ég dansaði nokkur lög og fékk einn blautan koss, en svo var hún bara allt í einu horfin; horfin og ballið var búið og við fórum út og fengum okkur tvær með öllu í pulsuvagninum við pósthúsið, svo aftur í slagandi kösina fyrir utan Borgina og snöpuðum partí, þar var gítar og ég asnaðist til að byrja að spila og endaði með að halda uppi fjöldasöng þar til allt áfengt í húsinu var á þrotum; það var um sjöleytið um morguninn, Villi var farinn heim að sofa; þá var boðið í annað hús, en þegar þangað kom var nóg af víni en ekkert bland og til að losna við gítarinn bauðst ég til að fara niður á BSÍ og kaupa Kók; ég fékk dræ gin á gosflösku í nesti og labbaði af stað, það var svo stutt, það var sól, það var kyrrt, það voru fáir á ferli, mávagarg úr mýrinni - en samt var einn á undan mér við söluopið: lítill, þybbinn og frekar ógeðfelldur náungi sem sagðist heita Jón einsog ég; hann spurði hvort ég gæti reddað víni og þetta er það síðasta sem ég man.
 Kannski fór ég í vínleiðangur með þessum nafna mínum; ég vissi um tvo gamla kalla sem drýgðu ellilífeyrinn með sprúttsölu. Ég hefði líka alveg eins getað farið heim og náð í vín þar - eða bara boðið honum að koma með í partíið. En það er víst það eina sem vitað er að ég gerði ekki þessa tvo klukkutíma sem ekki hefur spurst til ferða minna. Ég sneri aldrei aftur með blandið, en í lögregluskýrslunni stendur að ég hafi sést koma slagandi eftir einstefnugötu í Hlíðunum; næstu götu við þá þar sem partíið var. Klukkan mun hafa verið um hálftíu. Við hús nálægt enda götunnar var miðaldra maður að dytta að bílnum sínum í innkeyrslunni. Allt í einu fann hann einhver ónot fara um sig, leit upp og í kringum sig og þá sá hann mig sitja þarna vaggandi á handriðinu við útidyrnar á fyrstu hæð einsog ég væri hálfsofandi. Hann hljóp af stað, en náði ekki upp áður en ég datt aftur fyrir mig niður í kjallaratröppurnar. Fallið reyndist þrír metrar.

(s. 16-17)