Hliðargötur – Sideroads

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2011

Ljóðabókin Hliðargötur í enskri þýðingu Ástráðs Eysteinssonar og Julian Meldon D'Arcy. Þýðingarnar eru prentaðar samhliða upprunalega íslenska textanum. Ástráður og Julian rita einnig inngang: „Frá einum stað til annars“.

Úr inngangi:

Bókin Hliðargötur eftir Jónas Þorbjarnarson birtist árið 2001 og er sjötta ljóðabók höfundar. Segja má að skáldið sé á faraldsfæti í þessari bók. Mörg ljóðanna tengjast ákveðnum stöðum, einkum á Íslandi, en einnig er boðið í ferð til meginlands Evrópu. Og þau ljóðanna sem ekki nafngreina staði taka undir með hinum í viðleitni til staðsetningar – í huganum, á meðal hlutanna, á miserilsömum brautum samfélagsins, á æviferlinum. Þannig er smám saman dreginn upp ljóðaheimur sem grundvallast í senn á ferðalagi lesandans milli „áþreifanlegra“ staða og leit skáldsins að augnablikum, kenndum og minningum: tjaldhælum þeirra heimkynna sem myndast í vitundinni.

Bókinni er skipt í fjóra hluta. Sá fyrsti hefst á ljóði þar sem ævinni er líkt við land sem er enn í örri mótun, með jarðhræringum og virkum eldstöðvum. Þetta land gæti verið Ísland, hin jarðsögulega unga eldfjallaeyja, en ljóðmælandi er kannski með hugann við Grímsnes, sem er sjónarsvið þeirra ljóða sem koma næst á eftir. Heimurinn þarna kann að virðast „fullskapaður“, eins og segir í ljóðinu „Fínstillt“, en hann er í reynd mótaður af eldgosum, jarðhræringum og hraunrennsli á jarðsögulegum nútíma; semsé land í deiglu. Raunar skók mikill jarðskjálfti þetta svæði árið 2000, árið áður en ljóðabókin birtist. Þarna hugleiðir ljoðskáldið staðsetningu, ferðalög og tíma – tíma jarðarinnar og lifandi fyrirbæra hennar, þar á meðal mannverunnar.

Í öðrum bókarhlutanum erum við enn í Grímsnesi, nú í myrkri. Ljóðmælandi stikar eftir malbikuðum veginum og segja má að í ljóðinu eigi sér stað dularfullt samtal myrkursins, hins ósýnilega landslags og mannsins sem veltir fyrir sér hvort hann sé „einn í firnum geimsins“.

(8)