Hlutskipti manns

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1983

André Malraux: La Condition humaine.

Úr Hlutskipti manns:

- Vantar fimm mínútur, sagði Tséng. Mennirnir í hópi hans biðu. Þetta voru allt verkamenn úr spunaverksmiðjunum, klæddir bláum strigafötum. Allir voru þeir rakaðir, allir horaðir, - allir stæltir. Á undan Tséng hafði dauðinn kosið sér sína úr liðinu. Tveir voru með riffil undir handleggnum, hlaupið vísaði til jarðar. Sjö voru með skammbyssur úr Sjan-Töng; einn með eina handsprengju; nokkrir földu þær í vösum sínum. Einir þrjátíu voru með hnífa, kylfur, byssustingi; átta eða tíu vopnlausir krupu hjá hrúgum af tuskum, benzínbrúsum, vírrúllum. Unglingur var að skoða stóra naglagaura með breiðum haus sem hann dró upp úr poka eins og það væri útsæðiskorn: vissulega lengri en í gegnum hestaskeifur ... Eins konar Court des Miracles, Kraftaverkatorg, en hér var allt sameinað undir merkjum haturs og eindrægni.
Hann var ekki einn af þeim. Þrátt fyrir morðið, þrátt fyrir nærveru sína. Ef hann skyldi deyja í dag myndi hann deyja aleinn. Fyrir þá var allt ósköp einfalt: þeir voru að berjast fyrir brauði sínu og sjálfsvirðingu. Hvað hann snerti ... fyrir utan sársauka þeirra og sameiginlega baráttu, þá kunni hann ekki einu sinni að tala við þá um neitt. Alltént vissi hann að ekkert bindur menn fastari böndum en baráttan.

(s. 78)