Höfuðlausn

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2005
Flokkur: 

Um bókina:

Það er sumarið 1919 og á svipstundu breytist Reykjavík úr þorpi í borg þegar hópur leikara og kvikmyndagerðarmanna kemur til Íslands til þess að filma Sögu Borgarættarinnar eftir Gunnar Gunnarsson. Jakob Ólafsson, ungur maður sem rekur sína eigin leigubílastöð, ekur fyrir útlendingana, og verður fyrr en varir yfir sig ástfanginn af aðalleikkonunni.
 
Ýmsar nafnkunnar persónur verða á vegi Jakobs; Þorsteinn Erlingsson skáld, listmálarinn Muggur, Thor Jensen útgerðarmaður, að ógleymdum Árna Óla blaðamanni og Knut Hamsun.
 
Skáldsagan Höfuðlausn er öðrum þræði ástarsaga og fyrr en varir eru konurnar í lífi Jakobs ekki ein heldur tvær þegar hann kynnist Ásthildi Björnsdóttur gullsmíðanema. En einmitt þegar Jakob er í þann veginn að höndla hamingjuna tekur tilveran sína stefnu og býr honum og hans nánustu óvænt örlög.

Úr Höfuðlausn:

Ég þorði ekki
að snerta gyðju

Einn sunnudag var gert hlé á tökum. Það var glampandi sól, sem er engu betri til kvikmyndunar en grenjandi rigning. Allir voru fríinu fegnir og fólki þótti ekki verra að Sommerfeldt skyldi fara með Agli Jacobsen á skytterí því þá gat það um frjálst höfuð strokið. Þeir fóru nestaðir og með tvær forláta haglabyssur. Ég var snemma á fótum og var í rólegheitunum að söðla hest, sem e´g hafði eligt af bóndanum, þegar Elisabeth stóð syndilega við hliðina á mér og spurði:

- Jakob,k hvor skal du hen, lille skat?

- Ég ætla að fara til Selfoss að líta eftir bílnum mínum, svaraði ég en mér fór daglega fram í dönsku þótt fólk henti gaman að framburðinum. Elisabeth langaði í útreiðartúr og bóndinn leigði mér annan hest. Við gátum ekki talað nægilega mikið saman á leiðinni en ég fann að hún hafði ekki síður gaman af framburði mínum en aðrir; það gerði í sjálfu sér ekkert til en mér var samt erfiðara um mál en vanalega.

- Hvernig líkar þér að vera props? spurði hún.

- Vel, sagði ég og skalf af hamingju í návist hennar.

- Aldrei gæti ég látið siga mér svnoa til og frá, sagði hún og brá fyrir sig rödd Sommerfeldts: - Props, stilltu upp hrífu! Props, stilltu upp ljá! Jakob, hlauptu eftir glasi af vatni fyrir mig, ég er þyrstur. Strax! Vertu fljótur.

Hún leit feimnislega til mín til að athuga hvort ég hefði móðgast og hallaði undir flatt. ÉG hafði tekið eftir að sjáöldrin skiptu litum og urðu græn ef hún gladdist en döknuðu ef hún reiddist; augu hennar voru ótru´lega falleg.

- Hvernig líkar manninum þínum ef þú ferð svoa einsömul í útreiðartúr með öðrum karlmanna? spurði ég.

- Honum kemur ekkert við hvert ég fer! Hann gerir sjálfur allt sem honum sýnist, svaraðih ún með samanbitnum vörum.

Eftir þessa spurningu mína riðum við áfram í vandræðalegri þögn góða stund. Ég áði við lækjarsprænu til þess að leyfa hestunum að drekka og áður en ég fékk tækifæri til að hjálpa henni brá hún sér af baki. Ég hafði orðið mér úti um nesti á bænum og tók það nú fram og bauð henni með mér. Það var kaffi á flösku í sokk og hverabrauð með kæfu; hún gretti sig en þáði samt kaffi úr bollanum mínum. Mér fannst ég eins og þurs með þetta nesti í brúnum og blettóttum bréfpoka. Þegar ég hafði borðað brauðsneiðina lagði ég pokann til hliðar og tók fram skrifblokkina og pennann og leit ábúðarfullur í kringum mig.

- Hvað ertu alltaf að skrifa? spurði hún.

- Ég er fréttamaður Morgunblaðsins.

- Og er það eitthvað voða merkilegt blað?

- Það er stærsta blað Íslands, sagði ég.

- Gunnar Gunnarsson, hann er líka sískrifandi, sagði hún. - Ertu kannski að hugsa um að gerast rithöfundur?

Hún hallaði sér aftur á bak í grasið og lokaði augunum svo ég sá ekki hvort hún var að hæðast að mér. Röddin gaf það ekki til kynna.

- Nei, sagði ég. - Ég held ég hafi ekki hæfileika til þess.

- Þú hefur hæfileika til þess eins og hver annar. Ef vinur minn hefði ekki hvatt mig til að koma í leiklistarnám hefði mér aldrei dottið það í hug. Þú átt að koma til Danmerkur og skrifa á dönsku eins og Gunnar Gunnarsson. Svo skil ég við Egil, þann leiðindahund, og við giftum okkur. Þú gerist afkastamikill samstarfsmaður Sommerfeldts og þið semjið saman hvert kvikmyndahandritið á fætur öðru.

(58-60)