Hrólfs saga: fönnin hylur sporin

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2015
Flokkur: 

Fönnin huldi spor margra Íslendinga áður fyrr þegar menn fóru fótgangandi landshorna milli í misjöfnum veðrum. Í bókinni Hrólfs sögu rekur Iðunn Steinsdóttir sögu langafa síns, Hrólfs Hrólfssonar. Hann háði harða lífsbaráttu sem sveitarómagi og síðar vinnumaður í lok 19. aldar. Hrólfur hafði yndi af bókum og þráði að koma undir sig fótunum og búa konu sinni og börnum betra líf. En landlaus maður átti fárra kosta völ.

Mörgum mun koma á óvart að lesa um nöturleg kjör almennings fyrir rúmri öld, en hér bregður Iðunn upp ljóslifandi mynd frá þessum tíma sem hún setur í sögulegt samhengi. Mynd af efnilegu barni og síðan ungum manni sem ætíð var fullur væntinga um bjartari tíma.

Úr bókinni:

Hrólfur stendur þögull og starir þar til þau verða að grárri þúst sem hverfur loks út í ókunnan fjarskann. Hann heldur á mórauðri rýju sem hann hafði rifið af móður sinni í látunum. Augun eru þurr en langt inni í brjóstinu og halda ópin áfram að byltast og rótast af svo miklum þunga að hann skelfur.

- Svona, litla skinn, komdu og fáðu þér bita. Þú þarft líka að fá sokka eða skó, segir húsmóðirin, tekur í höndina á honum og leiðir hann inn.

Bærinn er lítill, ekki ósvipaður bænum þeirra fyrir austan.

- Ég heiti Þorgerður, segir hún og setur hann niður á rúmfleti. Svo fer hún fram og kemur aftur með mjólkurkrús, harðfiskbita og smjörklípu.

Hann lyftir krúsinni varlega að munninum. Það er svo langt síðan hann bragðaði mjólk síðast. Kýrin þeirra drapst einhvern tíma áður en Jónas fæddist.

Mjólkin er betri en nokkuð annað sem hann hefur bragðað á ævi sinni. Hann var búinn að gleyma hvað hún er góð og tekur örlitla sopa til að treina hana sem lengst. Inn á milli naslar hann fiskinn og smjörklípuna. Á eftir er hann pakksaddur, veltur út af á fletinu og þrýstir rýjunni að vitunum. Ilmurinn af mömmu situr í henni.

Af hverju fór hún? Ætli hann sjái hana nokkurn tímann aftur? Hún hefði átt að skilja Jónas eftir hérna, hann er hvort sem er alltaf grenjandi. Sjálfur hefði hann ekki grátið, hann hefði gert allt til að hjálpa mömmu og gera hana glaða.

Hann liggur í rúminu og heldur fyrir eyrun, vill ekki heyra ókunnugar raddir, vill bara ímynda sér að hann heyri í mömmu sem segi honum söguna af Sveini langa.

Dagarnir silast áfram í þögn. Hrólfur er fullur af orðum sem hann getur ekki sagt og tárum sem hann getur ekki grátið. Hann er aleinn þó að fólkið sé allt í kringum hann og líka hundarnir og heimalningurinn. Mamma er farin, hún tók Jónas með sér en skildi hann eftir. Hann hafði alltaf verið ofurlítið hræddur um að henni þætti vænna um Jónas en sig, þó hann vildi ekki trúa því. En núna veit hann betur.

Engum þykir vænst um hann. Ingunn hafði alltaf verið uppáhaldið hjá föður þeirra áður en guð sótti hann og það var allt í lagi því að hann varð sjálfur eftirlætið hennar mömmu. Þangað til Jónas kom. Jónas sem á föður hér á jörðinni og þarf þess vegna ekkert á mömmu að halda. Núna er hann hjá þeim báðum.

(14-5)