Húfulaus her

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2010
Flokkur: 

Húfulaus her er smárit í ritröðinni Umslag sem forlagið Kind gefur út.

Fyrsta umslagið var ljóðaumslagið Sjöund eftir Gunnar Hersvein frá 2008 og auk umslags Sigurbjargar kom smákrimmi Hermanns Stefánssonar, Morð fyrir luktum dyrum, út í röðinni árið 2010. Umslag er ritröð um menningu og mannlíf með ritgerðum, greinum, sögum, ljóðum og myndverkum.

Úr Húfulaus her:

Hún fýkur alltaf af!

Giljagaur snarast inn um dyr, stikar rakleitt að því sem virðist vera afgreiðsludiskur bifreiðaverkstæðis og biður um að fá gert við húfuna sína.

„Ég var að taka bílpróf og keypti mér blæjubíl og hún fýkur alltaf af.“

„Blæjan?“

„Nei, húfan.“

Gráhærður maður fyrir innan diskinn setur rólega upp gleraugu.

„Hvað með að aka hægar, þá?“

„Fráleitt.“

„Fá sér minni húfu?“

„Neeei, ég vil fá reimar á þessa, sem ég get bundið undir hökuna,“ segir Giljagaur óþolinmóður.

„Finnst þér það nú nógu gæjalegt?“ spyr sá gamli.

„Gæjalegt? Veistu hvað manni verður kalt á eyrunum að keyra svona hratt?!“

Gráhærði maðurinn rifjar upp þegar Giljagaur kom og vildi láta sauma augnlok á bangsann sinn sem ætti bágt með svefn – hann rifjar líka upp þegar hann hugðist skila hárinu sínu og þegar hann heimtaði að kaupa úlpu á skuggann sinn.

„Giljagaur minn, vertu úti ef þú ætlar ekki að fá neitt,“ segir maðurinn og Giljagaur lúskrast sneyptur út af myndbandaleigunni.