Hvað er San Marino? : ferðaþættir og fleira

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1973
Flokkur: 

Úr Hvað er San Marinó?:

Að hugsa sér. Hvílíkt og annað eins. Veðrið hjá okkur í sumar, ég skal segja ykkur það. Jesús minn þetta endalausa vatn. Hugsa sér að himinninn geti látið streyma yfir okkur svona mikið vatn á einu sumri, sem okkur finnst að ætti að skiptast á mörg sumur ef maður má leyfa sér að setja fram við almættið svo móralskt sjónarmið í heimi þar sem allt fólk hefur sýnu brýnni ástæður til þess að bera fram kvartanir og biðja um líkn og grið. Og koma svo út úr borginni með hennar döpru augum undir himninum gráa, frá litvana andlitum hins fræga Austurstrætis sem í eina tíð var stundum verið að yrkja um, þar sem maður gat ekki gert að sér að hugsa um skortinn á fögnuði í andliti eftir andliti þó ekki þyrfti að vera harmur heldur, bara eitthvert blikleysi í augum og tómleikinn og leiðinn, sem getur ekki allur verið kominn úr sjónvarpinu þvi það gefur sumarfrí. Mánuð eftir mánuð var þar vikulega verið að hlaupa sama hringinn í gormflækju á flótta með einhverju mannkerti sem er í þindarlausum stífudansi við neytendur, sama sagan þrjú hundruð sinnum svo hver meðalmaður ætti að geta verið orðinn vel stífur áður en þeirri veizlu linnir.

Og standa svo allt í einu á blásvörtum sandi fyrir neðan háa fjörubakka og sandbrekkur, fyrir ofan nýlendur sem skúmur og múkki skipta með sér. Horfa út á sjóinn, öldurnar brotna inn yfir ströndina, tugir af hnýsnum félögum safnast og vaggast með kringlótt höfuð forvitnir um þann sem fer yfir sandinn úr mannheimi, laðast nær og nær af forvitninni sem hræðslan temprar dálítið, lyftast einsog fljótandi boltar, stinga sér svo aftur með sitt fína yfirskegg og sálarlegu augun líkt og útlagar úr lífi mannanna sem þeir ættu annars að eiga einhverja hlutdeild í. Ofarlega á sandinum liggur einn þeirra farinn að rotna, þessi dauði selur er svo undarlega sárlarlaus álitum, það er að vonum að sálin þoli ekki lyktina. netakúlur af ýmsum gerðum líkt og þjóðirnar séu að minna á sig utan úr löndum, brot úr leikföngum barna hafrekin, snæristaumar, rekaviður, hnyðjur og brak. Og hálfopnar skeljar fullar af sandinum í staðinn fyrir dýrið litla sem bjó þar, loðandi við þöngla líkt og valinn hrossabrestur handa huldufólki.

(224-5)