Hvar frómur flækist: ferðasögur

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2004
Flokkur: 

Úr Hvar frómur flækist:

Leitin að Livingstone

Það brast á með miklu tóbakshallæri á íslandi þegar opinberir starfsmenn fóru í annað sinní verkfall, í október 1984. Þá var ég búinn að eignast heimili, konu og þrjú börn, búinn að skrifa þrjár bækur o byrjaður á fjórðu, var að þýða leikrit eða söngleik og bjó í kjallara inni í Smáíbúðahverfi.

Svo kom pabbi í kaffi ...

Pabbi var bensmaður. Mercedes Benz, 240D, það var hans annað heimili og í það minnsta hans varnarþing. Smellpassaði einhvernveginn utan um hann og tilfallandi farþega í leigubílnum. Fremst á húddinu stóð þrístjarnan inni í hring, hún vísaði veginn; einhver sagði: ,,Já, þú eltir auðnustjörnuna, og það fannst honum vel mælt og eftirminnilegt. Endurtók það stundum og komst í gott skap. Hann hafði gaman af fallegum orðum og vel gerðum setningum; fyndist honum einhver komast vel að orði þá hló hann hvellt og sagði svo: ,,Já, þú kannt að láta það heita eitthvað!

En það var semsagt bensinn; traust díselhljóðið átti vel vi ðhann og allt bar vitni vandaðrar smíði og svo var plássið nóg. Það skipti ekki minnstu máli. Þegar hann fór á sínum tíma í ökunám austur á Selfossi lærði hann á vörubíl, svo keyrði hanntrukka og rútur og var næstum aldrei á fólksbílum fyrr en hann fór að aka leigubíl hjá Steindóri rétt fyrir 1960 og þá voru það stórir amerískir chevrolettar. Einhvernveginn fékkst hann aldrei til að taka smábíla alvarlega; bíla af þeirri stærð sem flest fólk notar í seinni tíð og þykja harla góðir. Móðir mín fór síðar að eignast litla fíata og þannig bíla og hann gat ekki farið að setja út á þþá svona hennar vegna, en virtist samt álíta þetta vera meira í ætt við einhverskonar innkaupakörfur: ,,Þetta er allt í lagi til að skælast á svona út í búð! sagði hann við mig þegar aðrir heyrðu ekki. Hann áleit þetta vera svona vagna til að snattast á í skotferðum niður í bæ.

Einhverntíma þegar ég var um tvítugt, 1975 trúlega, vantaði mig far til Reykjavíkur frá Keflavík að kvöldlagi, var á einhverjum dalli og nýkominn í land og síðustu rúturnar farnar svo ég hringdi í pabba; hann taldi nú aldrei efitr sér að skutla mér hingað og þangað og leiðin til Keflavíkur var nú bara notalegur bíltúr fyrir bensinn á steyptum veginum. Og hann svarar í símann og heyrir erindið og er feginn að fá mig í land en segir að nú beri aldeilis illa í veiði, hann sé bíllaus, það sé maður að keyra á móti sér á bensinum; hann Lindi Riffill er með sinn bíl á verkstæði og er á mínum frá sjö að kvöldi og til sjö á morgnanna á meðan.

Ég taldi þetta ekki vera risavaxið áhyggjuefni, spurði hvort hann gæti ekki skotist á bílnum hennar mömmu; hún átti þá næstum nýjan Fiat 127; þennan fína innkaupavagn. En þegar ég hafði nefnt þann möguleika heyrði ég að pabbi fór að anda dálítið hratt og stressað í símann, eins og hann gerði jafnan ef hann heyrði eitthvað sem hneykslaði hann verulega, og hann sagði: ,,Heldur þú, Einar Kárason, að ég fari að keyra alla leið til Keflavíkur á því helvíti?

Nei, auðvitað ekki, hann var bensmaður.

(156-158)