Hystory

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2015
Flokkur: 

Leikhópurinn Sokkabandið setti leikritið Hystory eftir Kristínu Eiríksdóttur fyrst á svið í samvinnu við Borgarleikhúsið í Reykjavík leikárið 2014-2015. Verkið var frumsýnt á Litla sviði Borgarleikhússins 27. mars 2015.

Úr leikritinu:

BEGGA: (við áhorfendur) Það er alltaf þrennt.

Þegar vinnumálastofnun bauð mér starf á TGI Fridays í Smáralindinni þá afþakkaði ég boðið.

Þegar Vinnumálastofnun bauð mér starf á sambýli fyrir þroskahefta í Ármúlanum þá afþakkaði ég boðið.

Þegar Vinnumálastofnun boðaði mig á námskeið sem hét „Fáðu betra sjálfstraust í dag“ þrjú upphrópunarmerki þá afþakkaði ég boðið.

Þrjú brot og bæturnar voru teknar. Þrennt. Líf mitt gerist í þrenndum. Heimurinn starfar í þrenndum og ÞAÐ er helvíti.

Einn, tveir, þrír segið þið við börnin ykkar ef þau eru óþekk. Eeeeeiiiinnnn og ef barnið hættir ekki að vera óþekkt: Tveeeeiiiiiir. Og ef barnið hættir ekki óþekktinni: Þrííííír … og ekkert playstation í mánuð, ekkert kókópuffs í mánuð, ekkert sjónvarp í mánuð. Þrííííír. Engar bætur. Vanefndir í þrjá mánuði, húsnæðislaus. Þrennt.

… Hvernig finnst ykkur annars skórnir mínir? Þeir eru nýir. Ég pantaði þá á Ebay, á heildsöluverði. Hvernig finnst ykkur litirnir? Það voru svo margir í boði, svo margar samsetningar … Það tók mig alveg heilanótt að velja og morguninn eftir þurfti ég að fara í bankann. Það var alveg hrikalegt veður og ég labbaði í gegnum kirkjugarðinn til að reyna að fá skjól en þið vitið samt hvernig það er að vera svefnlaus í óveðri. Og svo mætti ég í bankann og þá segist einhver kerlingartrunta sem er samt örugglega yngri en ég að það verði að lýsa mig gjaldþrota.

Mér þykir það mjög leitt, sagði hún og það eina sem ég gat hugsað um var hvort skórnir mínir væru ekki örugglega á leiðinni.

(22-3)