Í greipum elds og ótta

Útgefandi: 
Staður: 
Akureyri
Ár: 
1986
Flokkur: 

Úr Í greipum elds og ótta:

Þetta festist svo í henni að það endaði með því að hún fór með símann inn á klósett og hringdi í hann.
 Hann ansaði strax, hann hafði ekki verið sofnaður.
 - Halló.
 - Pabbi, fyrirgefðu að ég skuli hringja.
 - Er eitthvað að?
 - Nei, mig dreymdi svo illa. Viltu lofa að hætta á sjónum.
 - Rósa mín, ertu orðin taugaveikluð allt í einu? Hún útskýrði fyrir honum drauminn og bað hann aftur.
 - Já, það er hægur vandi að lofa þessu. Ég var búinn að ákveða að halda áfram að vinna í landi í vetur að minnsta kosti. Ertu þá ánægð? Hún varpaði öndinni léttar.
 - Já, takk. Ástarþakkir.
 Rósu leið betur. Kristján bað hana að fara að sofa og reyna að slappa af. Þetta hefði bara verið martröð. Sennilega vegna þess að hún væri stressuð, og gæti ekki slappað af. Þau kvöddust. Rósa var sammála honum. Hún ákvað að fá sér kaffisopa og síðan myndi hún sofna værum svefni.
 Rósa settist við eldhúsborðið og fékk sér kaffi. Hún nennti ekki að kveikja ljósið og sat því í myrkrinu og sötraði hálfkalt kaffið. Hún var niðursokkin í hugsanir sínar þegar hún hrökk allt í einu ónotalega við. Það var andlit á glugganum. Hvítt og óhugnanlegt. Andlit sem starði inn í myrkvað eldhúsið. Rósa þorði ekki að hreyfa legg né lið. En þessi sýn stóð aðeins augnablik, síðan hvarf andlitið og hún sat stíf og horfði á auðan gluggann. Það var eins og eitthvað kunnuglegt við þetta andlit, samt var það svo ógeðslegt. Þegar hún loks þorði að hreyfa sig flýtti hún sér inn í herbergið til Tómasar og ýtti við honum. Nú gat hún ekki setið á sér lengur.
 - Tómas, í guðs bænum vaknaðu. Það er einhver að læðast fyrir utan húsið, ég sá andlit á eldhúsglugganum.
 Rödd hennar var hás og hún skalf.
 - Hvað er þetta, elskan mín. Farðu að sofa. Þig hefur dreymt illa.
 - Tómas, það er alveg satt. Ég gat ekki sofnað aftur og fékk mér kaffi. Þá sá ég þetta óhugnanlega andlit. Viltu gera eitthvað?
 Tómas settist upp.
 - Rósa, viltu gjöra svo vel að koma í rúmið. Þetta er ímyndun. Hættu að vera með svona vitleysu, þú ert þó fullorðin manneskja.
 - Það var andlit þarna.
 - Allt í lagi. Það var andlit á glugganum. Hvað með það? Það eru alltaf einhverjir rónar að flækjast úti um nætur. Auðvitað getur þeim dottið í hug að líta inn um einhvern glugga. En það er allt læst og lokað. Það kemst enginn inn. Góða farðu að sofa, eða leyfðu mér að minnsta kosti að gera það.
 Hann lagðist aftur niður og var byrjaður að hrjóta áður en hún vissi af. Hún varð bálreið. Þetta þekkti hún ekki til Tómasar. Hann gat ekki sagt að hún væri ímyndunarveik. Hún var ekki vön að fá einhverjar fáránlegar flugur í kollinn. Hún hafði séð þetta andlit og henni fannst hann ekkert of góður til að athuga það með henni. Þó þetta hefði verið meinlaus róni, þá hefði henni liðið betur ef hún vissi það. Rósa var líka viss um að þetta hefði ekki verið drykkjumaður. Einhvern veginn fannst henni að það hefði ekki verið neitt karlmannlegt við þetta andlit.

(s. 67-68)