Í luktum heimi

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1994
Flokkur: 

Úr Í luktum heimi:

... Þegar Jóhann Marsilíus rakst í fyrsta sinn á ástina lenti hann í fjóshaugnum. Það gerðist sama dag og loftskipið Graf Zeppelin flaug yfir Reykjavík og nágrenni, kynjadröngull sem lét úr sér leka sekk niður á Öskjuhlíðina og styrkti þar með samband lands við loft og heim allan með flugpósti. Ekki að það komi falli Jóhanns Marsilíusar við, en hann tengdi samt alltaf þetta flug Zeppelins greifa sögunni.

 Þetta var á úrugu júlíkvöldi, grá og þumbaraleg náttúran eins og mynd eftir geðillan impressjónista og Jóhann Marsilíus orðinn bæði rasssár og uppgefinn eftir dagsreið um fjöll og heiðar. Ennfremur kominn úrleiðis, allt að því villtur. En hann bar sig vel, sat fattur í hnakknum og lét engan bilbug á sér finna, enda afkomandi herkonunga og víkinga sem síst hefðu talið það karlmannlegt að bera sig upp undan slíkum smámunum. Auk þess nýbúinn að stofna fyrirtæki það í Reykjavík sem síðar átti eftir að verða landsfrægt, og framtíðin björt þrátt fyrir kreppu og óáran í heiminum. Nema hvað hann grillir loks í bæ kúrandi eins og þúst í dumbungnum og ákveður að halda þangað til að spyrjast til vegar og beiðast mjólkursoopa sér til hressingar.

 Hvergi sást hræring hjá bænum eða nokkurt lífsmark, ekki einu sinni hundur geyjaði, og af einhverjum ástæðum setti undarlegan beyg að Jóhanni Marsilíusi.
 Þokan var farin að þéttast og um stund sat hann hreyfingarlaus í þessari miklu þögn, blíndi út í grámann að því kominn að snúa við.

 En eymslin og afrifurnar, ásamt þorstanum, gerðu útslagið og hann steig af baki.

 Sem hann stígur af baki hestinum birtist skyndilega vera í þokunni, fyrirburður sem kemur líðandi yfir hlaðið í áttina til hans, einhvers konar afskræmd kvenmynd og stafar frá henni annarlegri birtu í grámanum. Hesturinn gneggjar lágt og Jóhann Marsilíus hörfar ósjálfrátt undan, um leið flækist eitthvað milli fóta hans svo að honum liggur við falli. Hann fátar í allar áttir, berst við að halda jafnvæginu meðan veran færist sífellt nær og gneggið bergmálar í þögninni. Hann hopar, reynir að sparka þessum aðkomuhlut milli fóta sér á burt, en er eins og límdur, hangir á honum og veran aðeins fáum fetum fjær. Í einhverju óráðsfáti tekur hann það til bragðs að stökkva snöggt upp og aftur á bak, er þar með skollinn á bakið í drulluna.

 Í sama mund heyrist mjúklát stúlkurödd ákallandi almættið gegnum fólskulegt hundsurr.

 Þá er það sem Jóhann Marsilíus sýnir að hann er enginn aukvisi. Hann rís snöggt á fætur, hristir af sér óhroðann, slæmir löppinni örsnöggt í hundskvikindið um leið og hann fellur á kné fyrir framan stjarfa og óttaslegna stúlkuna, grípur í hönd hennar, segir: Fyrir fegurðina leggst ég fús í skítinn.
 Svo drap hann hana.

(s. 7-8)