Í upphafi var morðið

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2002
Flokkur: 

Krimmi eftir Árna Þórarinsson og Pál Kristinn Pálsson.

Kristrún er ungur kvikmyndaleikstjóri sem er að vinna að heimildarmynd um ár í ævi jökuls þegar móðir hennar deyr með voveiflegum hætti. Samband þeirra mæðgna hafði, eins og fleira í fortíð Kristrúnar, verið erfitt og átakamikið. Áður en Kristrún veit af er hún sjálf komin á kaf í rannsókn á dularfullri atburðarás sem kollvarpar því sem hún hafði áður talið sannleikann um ævi sína.

Úr Í upphafi var morðið:

Bráðkvödd? Burtkölluð í skyndingu? Í svip hennar var ekki að sjá ró eða hvíld. Yfir andlitinu var ekki friður, þar sem hún lá á líkbörunum. Hún var ekki sátt við að fara. Ég hafði snert vanga hennar. Hún var köld eins og ís.
Mér hafði verið sagt að ég gæti ekki séð hana strax. Andlát hennar væri í rannsókn. Ég gerði allt vitlaust. Og fékk mitt fram með látum. Þeir gáfust upp til að losna við mig.
Ég lít á vekjaraklukkuna á náttborðinu. Hún er að nálgast fjögur. Ég hafði reynt allt til að sofna. Grafið upp gamalt svefntöflubox og tekið tvær. Ég varð bara þyngri og þyngri. Sökk dýpra í uppistöðulónið, tróð marvaðann innan um minningarnar sem þvældust hver um aðra. En ég sofnaði ekki. Ég hafði meira að segja grátið, lengi, lengi. En ég grét mig ekki í svefn. Önnur andvökunóttin í röð. Spennan í meðvitundinni hefur kviknað í togstreitu sjálfsásakana og sjálfsréttlætinga en í efsta laginu hvílir ákall mömmu: Þú veist ekki hvað þú hefur gert mér! Þú veist ekki hvað þú hefur kallað yfir okkur!
Ég rís úr rekkju og þegar ég geng upp hringstigann sem liggur upp í íbúð mömmu, hugsa ég að kannski sé þess ekki langt að bíða að Þór hafi rétt fyrir sér: Að ég gangi aftur af göflunum, missi alla stjórn á sjálfri mér og lífi mínu. Hugsa hvort ég þurfi að panta tíma hjá lækninum. Í eldhúsinu helli ég mér skjálfhent upp á te, geng með rjúkandi bollann inn í stofu og að vesturglugganum. Í nóttinni heyrist hvorki stuna né hósti úr allri borginni. Hús Gróu er myrkvað.
Ég sest í brúnbólstraða hægindastólinn sem mamma sat alltaf í. Legg bollann á litla borðið við hliðina á honum og kveiki á útskorna lampanum með snákunum. Gul birtan slær á myrkrið í stofunni. Ég kveiki mér í sígarettu og halla mér aftur í stólnum. Reykurinn liðast upp að ljósakrónunni. Hún er stór og þung.
Afturhvarf: Villingurinn ég, kannski sex eða átta ára, hef prílað upp á stól og hangi í örmum krónunnar. Reyni að sveifla mér eins og milli trjágreina. Það er ekki í þessu húsi, heldur öðru. Allt í einu stendur mamma í stofugættinni, ofboðslega reið. Skammirnar og formælingarnar dynja á mér eins og örvar.
Þetta gerir þú aldrei aftur! öskrar hún. Aldrei!
Ég gerði það aldrei aftur. En þá gerir hún það. Svona. Tilhugsunin er annarleg. Af hverju valdi hún þennan stað, þessa aðferð? Ekkert bréf, engin skilaboð, engin skýring. Ekkert nema hryllilegt rifrildi okkar. Orðin sem ég get aldrei tekið aftur. Valdi hún einmitt þess vegna þennan stað og þessa aðferð? Var það hennar bréf? Hennar hinstu skilaboð til mín?
Ég lít niður og lyfti báðum höndum upp í skímuna frá borðlampanum. Sný að mér úlnliðunum. Örið eftir skurðinn á þeim vinstri blasir við. Dauft en samt svo skýrt.
Aldrei skýrara.

(s. 27-29)