Inga : opinská lífsreynslusaga ungrar stúlku

Útgefandi: 
Staður: 
Akureyri
Ár: 
1983
Flokkur: 

Úr Ingu:

Það var haust. Ég sat við gluggann í herberginu mínu og horfði út. Það var ekkert spennandi sem mætti sjónum mínum. Garðurinn okkar var farinn að láta á sjá, sýna þess merki að brátt legðist yfir hann snjór og gróðurinn mundi sofna þyrnirósarsvefni til næsta vors.
 Blöðin á litlu trjáplöntunum okkar voru farin að gulna og blómin sem fyrir svo örskömmu höfðu staðið í blóma voru að falla. Það var gola af hafinu og ég vissi að hún var svöl. Hafið, það heillaði mig.
 Ég horfði út á sjóinn, hann var ókyrr. Hann vissi eins og ég að sumarið væri á enda og brátt gæti hann farið að sýna sínar ægilegustu hliðar. Hann gat það alltaf, hann var svo óútreiknanlegur og krefjandi, hafið var það sem lokkaði og æsti.
 Ég opnaði gluggann og andaði að mér sjávarloftinu, en það róaði ekki skap mitt. Það var frekar að það æsti mig upp, óróleikinn innra með mér óx við hvern andardrátt og mér fannst ég vera að springa. Ég lokaði glugganum aftur en sjávarloftið var inni hjá mér og ég fann enn lyktina. Sjórinn og ilmur hans hefði ekki átt að vekja hjá mér slíkan óróa, ég er alin upp við sjóinn og hann eins og eitt af því sem ég gat ekki verið án. Það var bara skap mitt sem vildi ekki sefast.
 Ég vissi ekki hvað olli þessu, það hafði ekkert skeð sem hafði æst upp taugar mínar. Sennilega var það tilbreytingarleysið sem var að fara með mig. Það gerðist ekkert, sama hringrásin dag eftir dag, en ég þráði ævintýr, frelsi, sjálfstæði. Það var þetta sem ég þráði og ég gat ekki beðið.
 Nú var veturinn að koma og ég sá fram á sama tilbreytingarleysið. Það var þó alltaf frekar von á ævintýrum að sumri til. Nei, ég hlaut að vera yfirþyrmandi leiðinleg og venjuleg manneskja.
 Hvað var ég sjálf, ekkert. Ekki sæt, ekkert gáfuð. Ég er ekki viss um að ég hefði verið í rónni þótt ég hefði haft fegurð, glaðværð eða heilabú sem hver alþingismaður hefði verið stoltur af. Það var ekki það, það var eitthvað innra með mér sem vildi brjótast út, gera uppreisn gegn öllu. Pabba, mömmu, vinnunni. Mig langaði helst til að setja frat í allt þetta og þó mest í þetta rotna þjóðfélag sem mér hafði verið þröngvað inn í án þess að ég væri spurð.
 Það er víst ekki vaninn að spyrja mann að slíku, en mér fannst þetta óréttlátt. Mér fannst ég vera fjötruð, föst á vissum stað í kerfinu, stað sem mig langaði ekkert til að vera á. Ég vildi ekki staðna, vildi ekki verða gömul og missa af öllum lífsins gæðum. Ég átti auðvitað ekki að kvarta, ekki var ég neinn unglingur lengur, nítján ára. Ekki vantaði peningana. Ég bjó hjá pabba og mömmu. Pabbi er útgerðarmaður og á tvo báta í félagi við annan og er sjálfur skipstjóri á öðrum. Svo var það fiskvinnslan, hana áttu þeir líka, svo vann ég sjálf. Nei, mig hafði aldrei skort peninga.

(s. 5-6)