Inn í myrkrið

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2015
Flokkur: 

Um bókina:

Vorið 2011 er á yfirborðinu fallegt og friðsælt í lífi Óskars. En það er óhugur í honum. Brátt mun vaxandi ókyrrð í sálarlífi hans finna sér farveg í afdrifaríkum ákvörðunum. Óuppgerð mál úr fortíðinni leita upp á yfirborðið og smám saman dregst þessi 48 ára gamli maður inn í félagsskap og áform sem ógna tilveru hans. Þegar sumarið er á enda stendur Óskar frammi fyrir afleiðingum gerða sinna og framundan er örlagaríkt uppgjör.

Úr bókinni:

Þegar Óskar skilaði lyklinum til móður sinnar morguninn eftir sagði hann henni frá ummerkjunum í íbúð Braga. Hann sagði að honum litist ekki á að hún færi þangað ein. Hún spurði hvort eitthvað hefði bent til innbrots, brotnir gluggar eða útidyrahurðin brotin upp. Hann neitaði því eftir dálitla umhugsun en sannleikurinn var sá að hann hafði ekkert kannað gluggana þó hann ætti að vera fagmaður á þessu sviði, hann hefði einfaldlega orðið svo drulluhræddur að hann hugsaði ekki skýrt.

„Þá hefur þetta bara verið leigusalinn,“ sagði móðirin.

„Þekkirðu hann?“

„Nei, veit ekkert um hann.“

„Er það ekki dálítið skrýtið að leigja út íbúð með flatskjá? Sér leigjandinn ekki sjálfur um svoleiðis hluti?“

Móðirin yppti öxlum. „Ég býst við að allt sé til í þeim efnum eins og öðru.“

Óskar kinkaði kolli. Allt í einu var þetta ekkert ógnvekjandi.

Þegar hann kom í vinnuna þennan morgun lá samanbrotinn bréfmiði á skrifborðinu hans:

Fimmtudagskvöld klukkan 8 ok?
R.

Hann krumpaði miðanum saman og fleygði honum skelfdur í bréfakörfuna. Hann svaraði henni með tölvupósti: „ok fimmtudagskvöld.“ Hann fann fyrir ljúfum fiðringi og á sama tíma fyllgist hann lamandi ótta. Ilmurinn af Rósu fyllti hugskotið og hjartað hamaðist í brjóstinu. Það heyrðist næstum því jafnhátt og einhver væri að tromma á borðplötuna.

(73)