Játning

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2001
Flokkur: 

Af bókarkápu:

Þau voru sjö krakkar, fjórir strákar og þrjár stelpur, óaðskiljanlegir vinir öll bernsku- og æskuárin en síðan skildu leiðir. Ein stelpan var Agatha, skírð í höfuðið á skáldkonunni frægu. Hún hefur búið í Danmörku eftir voveifilegan dauða móður sinnar en skyndilegt andlát í fjölskydunni dregur hana heim á ný. Agatha hefur tæpast stigið fæti á land þegar hún fær að vita um hræðilegan dauðdaga systur sinnar sem allir álíta að hafi stytt sér aldur. Agatha leggur ekki trúnað á það og ákveður að leita hins sanna. Sú leit leiðir hana um undirheima Reykjavíkur, á slóðir vændis og sora en einnig ískyggilegra fjölskylduleyndarmála. Hún kynnist bernskuvinunum að nýju en fljótt kemur í ljós að í þeim hópi eru ekki allir viðhlæjendur vinir. Einhverjir vilja Agöthu feiga og tvísýnt hverjum treysta má.

Úr Játningu:

 -Varaðu þig!
 Lítill, svartur bíll kom æðandi og stefndi beint á mig. Eitt augnablik var ég sem frosin en svo kastaði ég mér til hliðar. Hlið bifreiðarinnar skall á mjöðminni á mér og ég valt eins og bolti eftir gangstéttinni. Hræðilegur sársauki nísti mjöðmina og hægri fótinn og ég greip um andlitið. Ég hafði skollið í stéttina og fann að blóðið fossaði úr nefinu á mér. Það var eins og hamarshögg byldu á höfðinu og ég fann sársaukabylgjur í höfðinu, mjöðminni og fætinum. Þó að sársaukinn væri mikill var það þó ekkert á móti tilhugsuninni um það að einhver hafði vísvitandi ætlað að aka mig niður. Magnús hafði bjargað lífi mínu á síðustu stundu. Ég heyrði drunurnar í bílnum þegar hann ók sem hraðast burt.
 Móður og másandi kom Magnús til mín.
 - Jésús Kristur, er allt í lagi með þig?
 Ég tók hendurnar frá andlitinu og hann endurtók nafn frelsarans.
 - Það munaði ekki miklu að þú endaðir eins og hún mamma þín núna. Hvernig er það, ertu óbrotin?
 Mig langaði að háskæla en Magnús tók undir herðarnar á mér og hélt mér upp að sér.
 - Ég verð að komast í síma. Við verðum að fá sjúkrabíl.
 - Nei.
 Ég snökti upp við öxlina á honum.
 - Ég held ég sé ekki brotin, ég get hreyft fótinn. Keyrðu mig bara uppá slysó. Við skulum ekki kalla út sjúkrabíl.
 - Elsku stelpan, þetta er ekki hægt.
 Hann tók jakkann sinn og lagði hann undir höfuðið á mér. Gömul kona kom hlaupandi út úr nærliggjandi húsi. Hún hrópaði:
 - Á ég að hringja í lögregluna? Ég sá hvað gerðist. Þessi ökuníðingur gerði þetta viljandi.

(s. 126-127)