Jólaljóð

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2006
Flokkur: 

Úr Jólaljóðum:

Jólasnjór

Sumir kalla hann sykur.
Flórsykur jólasveinsins
er hann sigtar mjöllina
úr skýjunum niður á
kökuna.

Þá sjá íbúarnir sporin
að húsinu og sporin
frá húsinu.

Hver kom, hver fór.
Hver hvorki kom né fór.

Gaman að vera fyrst
til að spora út kökuna.

Kvöldljóð uppvaskarans

Þegar nágrannaljósin slokkna
hengi ég uppþvottaburstann
á nagla og klæði mig í náttföt.

Lækka í ofninum, slekk ljósin,
opna gluggann: draumahliðið,
læsi útidyrunum, kippi í húninn.

Og sjá, stundvíslega opnast
dyr svefnhallarinnar, inn
gengur óskráður sonur.

Jólakjóllinn

Jólakjóllinn er blár og syndir í mannhafinu
utan um stelpuna á rauðum lakkskóm.

Hún er líka að reykja utan dyra því hátíðarnar
frelsuðu hana og bjuggu til nýja skvísu.

Í mannhafið.

Það eru reyndar nýjar skvísur út um allt þessi
jólin. Hvað gerðist á sjálfan jóladag.

Stelpur í jólakjólum og gömlum og nýjum
kápum storma eftir götunum reykjandi.

Ný stormsveit kannski.

Þær vita hvað þær vilja, segir göngulagið.
Hvað þær vilja ekki, segir göngulagið.

Jólakjóllinn er blár og syndir í mannhafinu
utan um stelpuna á rauðum lakkskóm.

Staka

anganin af koníakinu
vaggar höfðinu einsog
tjörn vaggar báti

höfuðið losnar úr
heimahöfn og heldur
á djúpið