Jólasveinarnir

Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1986
Flokkur: 

Almenna bókafélagið 1986, 1989 og 1993. Iðunn 2000, 2. útgáfa breytt og endurskoðuð.

Myndir: Búi Kristjánsson.

Úr Jólasveinunum:

Þá sleppti Hurðaskellir sér alveg. Svona margar hurðir hafði hann aldrei séð í einu á allri sinni löngu ævi. Hann skellti þeim aftur, einni af annarri, með svo miklum látum að húsið titraði. Svo hljóp hann upp á næstu hæð og skellti öllum hurðunum þar. Allur krakkaskarinn kom hlaupandi á eftir honum, hlæjandi og híandi. Á eftir þeim komu bekkjarkennararnir lafmóðir og reyndu að skakka leikinn. En niðri við jólatréð stóðu skólastjórinn og Sölvi yfirkennari aldeilis ráðalausir. Þeir botnuðu ekkert í þessum látum.
 - Hvað gengur að honum Brandi, er maðurinn genginn af göflunum? sagði Sölvi.
 - Hann hefur það af að eyðileggja allar hurðir í skólanum með þessu áframhaldi, sagði skólastjórinn örvæntingarfullur.
 - Við skulum hlaupa upp stigann hérna megin og reyna að stöðva hann. Ég held honum föstum og þú talar við hann, sagði Sölvi. Þeir hlupu af stað. Másandi og blásandi náðu þeir upp á þriðju hæð og þar kom Hurðaskellir beint í flasið á þeim. Sölvi greip hann og hélt honum föstum.
 - Hvernig er þetta með þig, Brandur, ertu búinn að missa vitið. Ætlarðu að eyðileggja allar hurðir í húsinu? sagði skólastjórinn höstum rómi. Hurðaskellir horfði á hann aldeilis hissa.
 - Ég heiti ekki Brandur, ég er Hurðaskellir, sagði hann.
 - Brandur Jónsson, þetta er ekkert fyndið, sagði skólastjórinn. Ef ég vissi ekki að þú ert bindindismaður, þá hefði ég haldið að þú værir drukkinn.
 - Ég held að þú sért sjálfur drukkinn fyrst þú kallar mig Brand. Ég heiti Hurðaskellir og hef heitið það í níuhundruð ár, hrópaði Hurðaskellir.

(s. 34)