Kaffihús tregans

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2010

Þýðing Óskars Árna Óskarssonar á The Ballad of the Sad Café eftir Carson McCullers frá árinu 1951.


Úr Kaffihúsi tregans:

„Ég veit hvað ungfrú Amelía hefur gert. Hún hefur myrt þennan náunga til að komast yfir eitthvað sem hann var með í töskunni.“
Hann sagði þetta sallarólegur eins og um blákalda staðreynd væri að ræða. Og áður en klukkustund var liðin hafði fréttin borist um bæinn. Slúðrið í bænum þennan dag var bæði hryllilegt og sjúklegt. Það innihélt allt sem gat fengið hjartað til að slá örar – kryppling, líkgröft í fenjunum um miðnætti, og svo það hvernig ungfrú Amelía yrði leidd um götur bæjarins á leiðinni í fangelsið, rifrildið um eignirnar sem hún léti eftir sig – allt sagt í pukri og hálfum hljóðum og sagan endurtekin með nýjum og fáránlegum viðbótum. Það rigndi og konurnar gleymdu að taka þvottinn af snúrunum. Einhverjir sem voru skuldugir ungfrú Amelíu, fóru jafnvel í sunnudagsfötin eins og það væri frídagur. Fólk safnaðist í hópa á aðalgötunni, stakk saman nefjum og hafði auga með búðinni.
Það væri ekki rétt að segja að allur bærinn hafi tekið þátt í þessum ljóta leik. Nokkrar skyni gæddar manneskjur töldu að ungfrú Amelía, sem nóg átti af peningum, hefði engan ávinning af því að myrða flækingsgrey til að komast yfir ómerkilegt skran. Í bænum voru jafnvel þrjár góðar sálir og þær kærðu sig ekkert um þennan glæp, ekki einu sinni þótt hann vekti forvitni og mikinn æsing – tilhugsunin um að ungfrú Amelía yrði sett á bak við lás og slá og svo tekin af lífi í rafmagnsstólum í Atlanta veitti þeim enga gleði.

(s. 20-21)