Kamp Knox

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2014
Flokkur: 

Kona rekst á illa farið lík í lóni sem myndast hefur við orkuver á Reykjanesi. Árið er 1979 og margt bendir til að hinn látni tengist herstöðinni á Miðnesheiði en þar hafa menn lítinn áhuga á samstarfi við íslensku lögregluna. Erlendur og Marion Briem freista þess að afla upplýsinga eftir krókaleiðum en Erlendur er þó að hálfu leyti með hugann við annað: Reykjavíkurstúlku sem hvarf sporlaust fyrir aldarfjórðungi.

Kamp Knox er átjánda skáldsaga Arnaldar Indriðasonar. Erlendur er nýlega byrjaður í rannsóknarlögreglunni og starfar undir handarjaðri Marion Briem en gömul mál sem flestir hafa gleymt láta hann ekki í friði.

Úr bókinni:

Yfirheyrsluherbergið í gæsluvarðhaldsfangelsinu í Síðumúla var lítið og óvistlegt með óþægilegum stólum. Hvorugur bræðranna var samvinnuþýður og yfirheyrslurnar yfir þeim drógust eina ferðina enn á langinn. Erlendur hafði ekki átt von á neinu öðru. Bræðurnir hétu Ellert og Vignir og höfðu dúsað í fangelsinu í fáeina daga.

Þeir höfðu áður komið við sögu lögreglunnar fyrir áfengis- og eiturlyfjasmygl. Þeir höfðu losnað af Litla-Hrauni um tveimur árum áður en fangavistin haft lítil betrunaráhrif. Svo virtist sem þeir hefðu einfaldlega haldið áfram þar sem frá var horfið og ýmislegt benti til þess að þeir hefðu jafnvel stýrt umsýslu sinni af Hrauninu. Yfirheyrslurnar áttu að leiða það í ljós.

Nafnlaus ábending hafði orðið til þess að beina sjónum lögreglunnar að þeim og það endaði með því að annar bróðirinn, Vignir, var gripinn með 24 kíló af hassi í kartöfluskúr ekki langt frá Korpúlfsstöðum. Þar fundust einnig um 200 lítrar af amerískum vodka í gallonskútum ásamt nokkrum kössum af sígarettum. Vignir neitaði að hafa vitað um tilvist góssins, kvaðst hafa verið gabbaður í þennan skúr, einhver sem hann vildi ekki nefna á nafn hefði látið hann hafa lykla að honum og sagt að hann gæti gengið þar í kartöflur.

Bræðurnir höfðu verið undir eftirliti lögreglunnar í nokkra daga áður en látið var til skarar skríða. Við húsleit á heimili þeirra fundust kannabisefni ætluð til sölu. Bræðurnir höfðu sáralítið þróað aðferðir sínar á undangengnum árum, voru síðast handsamaðir við mjög svipaðar kringumstæður. Marion leiddist þeir bræður báðir, fannst þeir vera heimskir og smásálarlegir fantar.

- Með hvaða skipi kom farmurinn til landsins? spurði Marion þreytulega. Þetta var í þriðja sinn sem Vignir var spurður þessarar spurningar. Erlendur hafði spurt hennar tvisvar sinnum áður.

- Það var ekkert skip, segðu mér hver laug að ykkur, sagði Vignir. Var það Elliði? Það helvítis fífl!

- Komu hassplönturnar líka með skipi eða var það með flugi? spurði Erlendur.

- Ég veit ekkert hver á þetta drasl! sagði Vignir. Ég veit ekkert um hvað þú ert að tla. Ég hafði aldrei komið í þennan skúr áður. Ég ætlaði að stela nokkrum kartöflum. Hver er að bulla í ykkur?

- Það eru tveir hengilásar á skúrnum, þú varst með lykla að þeim báðum. Af hverju læturðu eins og ekkert sé?

Vignir þagði.

- Þú varst gripinn með allt niður um þig, sagði Marion. Þér finnst það sárt en svona er það bara. Sættu þig við það. Hættu þessum asnaskap svo við getum farið að koma okkur heim.

- Ekki er ég að halda ykkur hérna, sagði Vignir. Þið getið drullað ykkur mín vegna.

(10-11)